Þríleikurinn um guðföðurinn Don Vito Corleone og son hans Michael er af mörgum talinn einhverjar bestu bíómyndir sem gerðar hafa verið. Enn merkilegra er að mynd nr. tvö þykir af flestum vera sú besta. Slíkt var nánast óþekkt enda sló fyrsta myndin, The Godfather, mörg met þegar hún var frumsýnd árið 1972.

Þó að myndirnar þrjár fjalli um Corleone-fjölskylduna og skipulagða glæpastarfsemi hennar þá eru viðfangsefnin og söguþræðir mun dýpri. Þannig eru tryggð og svik grunnþemu ásamt syndum feðranna, allt frá því að Vito litli flýr Ítalíu til Ameríku eða þegar sonur hans Michael hefnir fyrir tilræði við föður sinn og þegar börn Michael dragast inn í atburðarásina. Síðan eru önnur þemu eins og vald, dramb og auðvitað glæpir og refsing. Snilldin við þessar myndir er hversu djúpar þær eru og alltaf er hægt að sjá eitthvað nýtt þegar horft er á þær. En kannski eru bestu meðmælin hversu vel þær eldast.

Nú hefur framleiðandi myndanna, Paramount, gert tíu þátta sjónvarpsseríu, The Offer, sem byggir á minningum Albert S. Ruddy sem framleiddi fyrstu Godfather-myndina og allar þær áskoranir sem framleiðslan mætti. Stöðugir árekstrar milli listrænna sjónarmiða við peningamenn Paramount auk afskipta mafíunnar í New York við framleiðslu myndarinnar tryggja að aldrei er dauð stund. Þættirnir eru af slíkum gæðum og unnir af slíkri virðingu við viðfangsefnið að unun var að horfa á. Þess vegna ætla ég að gera þér tilboð sem þú getur ekki hafnað. Náðu þér í þessa sjónvarpsseríu sem er sýnd á ýmsum streymisveitum. Efni af þessum gæðum á samt miklu meira lof skilið en rúmast í þessum Bakþönkum.