Eins og sannur Íslendingur skellti ég mér í útilegu í sumar. Ég fór í hóp með sex öðrum pöbbum og börnum. Þeir eru aðeins eldri en ég og í samræmi við lögmálið um að menn glími við hækkandi lífaldur með aukinni græjueign, þá áttu þeir miklu betri græjur en ég.

Minn undirbúningur fyrir ferðalagið fólst í að sækja gamla góða tjaldið í geymsluna en þar hafði það verið frá því í síðustu efnahagshremmingum þjóðarinnar. Sannkallað krepputjald. Undirbúningur græjupabbanna var líkari því þegar stjórnvöld í einræðisríkjum halda hersýningar, heill dagur tekinn í verkefnið og allur búnaður dreginn fram við dynjandi lófaklapp.

Ef tjaldið mitt var lítil, nett kjallaraíbúð í miðbænum þá var ég að tjalda í kringum risavaxin einbýlishús úr Garðabænum. Þetta var svolítið andi ferðarinnar. Ég treysti á vegasjoppurnar varðandi aðföng en mínir menn hefðu fengið hvaða Miðflokksmann til að roðna, slíkt var fæðuöryggið. Ef þeir myndu týnast á hálendinu í nokkrar vikur væru fyrstu viðbrögð leitarmanna sennilega hvort þeir hefðu bætt aðeins á sig.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Á einu tjaldstæðinu sáum við nýja skólann í heimi hjólhýsanna. Við erum ekki að tala um hvíta, ferkantaða kassann sem nánast biður um að vindurinn taki sig, heldur ávalan hólk, í laginu eins og geimflaug sem brýtur vindinn þannig að jafnvel hröðustu Hafnarfjalls-hviður eiga ekki sjéns. Og ekki nóg með það, aftan á geimflauginni var hægt að opna hlera og þá tók við fullbúið eldhús. Með vaski og eldavél.

Græjupabbinn má nefnilega aldrei slaka á, því áður en þú veist er búið að breyta leiknum. Nema kannski ef maður á krepputjald.