Á miðnætti í gær var loks slakað á stífum samkomutakmörkunum sem gilt hafa og mega nú 150 manns koma saman og 300 mega vera viðstaddir trúarlegar athafnir og aðra sitjandi viðburði.

Eins var slakað á tveggja metra reglunni og er grímuskylda ekki eins rík og frekar undantekning þegar fólk á í nánum samskiptum en almenn regla. Ný­gengi veirunnar er nú með lægsta móti eða 8,2 innan­lands og eru yfir 80 þúsund Ís­lendingar full­bólu­settir. Verður bólusett tvisvar í þessari viku og enn meira vikuna á eftir.

Ekki nóg með að við megum fletta af okkur grímunni og halda stærri partí heldur spá veðurfræðingar veðurstofu Íslands blíðu í vikunni. Hitastigið á loks að fara upp í tveggja stafa tölu og jafnvel nálgast næsta tug, fara upp í allt að sautján stigum!

Eftir að hafa búið við skert frelsi í rúmt ár eru blikur á lofti um að allar slíkar reglur heyri sögunni til undir lok sumars. Ástæða þess að við erum komin svona langt í baráttunni við þennan heimsfaraldur er samstarf og samstaða. Samstarf vísindamanna, ríkisstjórna og lyfjafyrirtækja. Samvinna ríkisstjórnar okkar við framleiðendur bóluefnisins og ekki síst samstaða þjóðarinnar um að þiggja bóluefnið. Þjóðin sem flesta daga er helst til sundurleit og ósammála og verður seint talin sérlega reglufylgin, tók þessari áskorun og massaði hana! Skipulagið á bólusetningum hefur verið algjörlega magnað og það sem meira er, við höfum mætt, staðið í röð, setið og staðið eftir þörfum og séð til þess að þetta gangi allt saman upp.

Samkvæmt New York Times erum við í fimmtánda sæti á heimsvísu þegar kemur að bólusetningum og erum þannig efst Norðurlanda og framar flestum Evrópuríkjum. Við höfum svo gott sem náð Bandaríkjunum þar sem meira en nóg er til af bóluefni en vandinn þar felst frekar í því að fá fólk til að taka við því enda vantraust stórra hópa á yfirvöld ríkt. Ástæður þess að þjóðir eru neðar á þessum lista en við er skortur á fjármagni, skortur á samstarfi við aðrar þjóðir og svo að lokum skortur á samstöðu um að þiggja bóluefnið. Við getum hrósað happi þó að í fullkomnum heimi hefði bóluefninu verið dreift til þeirra sem mest þurfa á að halda burtséð frá landamærum.

En hingað erum við komin. Fyrir ári síðan var einnig létt á samkomutakmörkunum sem varð til þess að síðasta sumar varð flestum nokkuð ánægjulegt en bakslag kom upp og urðum við aftur að búa við skert frelsi. Það sem veitir okkur enn ríkari ástæðu til að gleðjast núna er sú staðreynd að bólusetningar eru komnar vel á veg og erum við farin að geta eygt hjarðónæmið handan við hornið.

Það er svo sannarlega gleðiefni og það er okkur að þakka – öllum!