Hey, þú!

Þú sem lest þessi orð núna.

Ég veit fátt um lífið þitt. Þótt þú segðir mér allt um þig myndi ég lítið skilja. Maður skilur ekki sjálfan sig. Hvað þá aðra. Eitt veit ég þó: Við erum að anda að okkur sama súrefni og þurfum ca. 13 kíló af því á sólarhring. Annað veit ég líka: Þú þráir öryggi og heilsu fyrir þig og þína líkt og ég. Við erum sem sagt stödd í sama loftmassa með sams konar hagsmuni. Kannski ættum við að tala saman.

Hefur þú tekið eftir því hvað fólk fer óvenju varlega þessa daga og reynir að brosa hvert til annars bak við andlitsgrímurnar? Getur verið að við séum öll að hugsa það sama bak við grímuna? Við sem höfum vanist þeirri hugsun að hver rembist við að hámarka eigin árangur í vinnu, líkamshreysti, fjármálum, ástamálum og öllu öðru. Allt í einu erum við ekki ein að rembast heldur komin í úníform og þjóðfélagið orðið að allsherjar heræfingu. Óvinurinn er ósýnilegur og gerir engan mannamun svo ekkert dugir nema virk samstaða í þágu heildarinnar. Við sem ætluðum að vera frjáls á eigin vegum sjáum í hendi okkar að ekkert frelsi mun fást nema því sé deilt með öllum. Um leið og við æfum veiruvarnir útvíkkum við hugann og uppgötvum hvað allt er innbyrðis tengt og háð hvað öðru á hnettinum bláa. Landamæri og peningar eru til hliðsjónar en loftstraumar og hafstraumar eru öflin sem ráða.

Erum við kannski öll að hugsa að nú sé tíminn kominn? Tíminn til að leggja saman af stað inn í breytingaferli þar sem við gerum það sem gera þarf svo að við ekki bara komumst út úr Kófinu heldur varðveitum loftmassann okkar og höfin heilbrigð og tryggjum þannig ófæddum kynslóðum öryggi og heilsu? Erum við tilbúin?