Tryggingastofnun mismunar skjólstæðingum sínum með ráðstöfun frítekjumarks milli ellilífeyrisþega. Þeir eru t.d. dregnir í sér dilk skjólstæðingarnir, sem fá eftirlaunin greidd beint frá vinnuveitanda sínum. Í skýringum skattsins (rsk.is) þar sem fjallað er um vinnulaun er eftirfarandi setning: „Eftirlaun sem greidd eru frá vinnuveitanda teljast til vinnulauna“. Tryggingastofnun skákar líklega í skjóli þessarar setningar með túlkun sinni á mismunun milli eftirlaunaþega við ráðstöfun frítekjumarks og framkvæmir sem tæmandi lagabókstaf. Málsgreinin fjallar um vinnulaun (atvinnutekjur), en ekki á tæmandi hátt. Til eftirlauna hljóta einnig að teljast atvinnutekjur (launatekjur) frá lífeyrissjóðum, jafnt sem eftirlaunasjóðum. Engin rök eru sjáanleg fyrir annarri túlkun.

Hvað er rétt?

Til að styðja við ofangreinda skoðun enn betur skulum við skoða tvö dæmi um sambærilegar leiðir greiðslu vinnulauna frá vinnuveitanda til starfsmanns. Mesti munurinn er tíminn frá því að vinnuveitandinn greiðir laun og aðrar starfstengdar greiðslur og þar til greiðsla berst til starfsmanns: Í fyrra dæminu er starfsmaðurinn skjólstæðingur starfsmannaleigu og í því seinna skjólstæðingur lífeyrissjóðs. Starfsmaður starfsmannaleigunnar vinnur verk fyrir vinnuveitanda, sem greiðir launin til starfsmannaleigunnar, sem greiðir starfsmanninum síðan vinnulaunin í samræmi við lög þar um. Í seinna dæminu greiðir vinnuveitandinn aðrar starfstengdar greiðslur til lífeyrissjóðs, sem greiðir skjólstæðingi sínum síðan launin í samræmi við lög þar um. Í báðum tilfellum túlkar skatturinn laun beggja sem launatekjur (vinnulaun). Af þessum tekjum er tekinn tekjuskattur og útsvar eftir almennum reglum um skattheimtu. Tryggingastofnun túlkar hins vegar tekjur frá lífeyrissjóðum sem fjármagnstekjur. Eru skattayfirvöld að túlka launatekjur frá starfsmannaleigum rangt? Að flokka þær ekki sem fjármagnstekjur í þessu tilfelli eins og Tryggingastofnun gerir við launatekjur (eftirlaun) frá lífeyrissjóðum.

Ákvæðið í lögum um almannatryggingar (1. mgr. 23.gr.) um sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna, hlýtur að eiga við um atvinnutekjur allra. Hjá Tryggingastofnun lækkar frítekjumark ellilauna frá lífeyrissjóðum um 75 þúsund krónum á mánuði (900 þús. kr. á ári) við þá ráðstöfun sem stofnunin beitir. Í raun lækkar frítekjumarkið um 100 þúsund krónur hjá þeim sem hafa einnig einhverjar fjármagnstekjur. Spyrja má hvor ríkisstofnunin túlki atvinnutekjurnar (vinnulaunin) rétt? Þessi túlkun á að vera samþætt hjá ríkisstofnunum.

Hvað er réttlátt?

Mismunun Tryggingastofnunar er ekki aðeins milli ellilífeyrisþega, sem fá eftirlaun frá „vinnuveitanda“ eða lífeyrissjóðum, heldur einnig milli ellilífeyrisþega stofnunarinnar innbyrðis, þ.e. milli þeirra sem hafa vinnu og þeirra sem hafa ekki vinnu. Annar fær hærra frítekjumark en hinn af því að hann er í launaðri vinnu. Hvers á ellilífeyrisþeginn að gjalda sem ekki hefur vinnu? Á hann að hafa lægra frítekjumark en ellilífeyrisþeginn sem hefur vinnu? Getur það verið tilgangur laga um almannatryggingar (1.mgr. 23.gr.) að setja ellilífeyrisþega sem hefur vinnu, skör hærra í afkomu möguleikum en þann, sem af hvaða ástæðu sem er, hefur ekki vinnu. Báðir hafa atvinnutekjur frá lífeyrissjóði. Varla er það tilgangurinn að láta atvinnulausa ellilífeyrisþegann njóta verri lífskjara, en þann sem hefur vinnu. Meira að segja fær atvinnulaus ellilífeyrisþegi, sem á rétt á atvinnuleysisbótum betri kjör en hinn sem á ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Þarna munar 75 þúsund krónum á mánuði, milli feigs og ófeigs. Hverjum fordómalausum manni er ljóst að tekjur frá lífeyrissjóðum eru ekkert annað en „aðrar starfstengdar greiðslur“ (orðalag Tryggingastofnunar), enda meðhöndlaðar þannig t.d. af skattayfirvöldum eins og fyrr er bent á.

Mótsögnin er hrópandi ef þetta óréttlæti verður látið viðgangast. Réttlætið er lögfest í stjórnsýslulögum (þ.e. 11. gr. um jafnræðisregluna í III kafla laganna). Í þessum pistli hníga öll rök til þess að þeir sem eiga rétt á ellilífeyri hjá Tryggingastofnun sitji ekki allir við sama borð. Þeir flokka skjólstæðinga sína í Jón og séra Jón að geðþótta við útreikning frítekjumarks vegna ellilífeyris og mölbrjóta jafnréttisreglu stjórnsýslulaga.

Leiðrétting er einföld í framkvæmd. Hún er að reikna eftirlaun frá lífeyrissjóðum eins og aðrar tekjur af atvinnu, eftirlaunum og atvinnuleysisbótum. Það er í senn rétt og réttlátt.

Höfundur er fótgönguliði í Gráa hernum.