Töluvert mæðir á forseta Bandaríkjanna þessa dagana þar sem nú fara fram réttarhöld í fulltrúadeild Bandaríkjaþings um meint brot hans á stjórnarskrá landsins. Trump forseti er sakaður um að hafa skilyrt hernaðaraðstoð í Úkraínu við loforð forseta landsins, Zelensky, um að hefja opinbera rannsókn á málum tengdum pólitískum andstæðingi Trump. Í vikunni flettu íslenskir fréttamenn Stundarinnar og Ríkissjónvarpsins, í samstarfi við erlenda blaðamenn, af sambærilegu siðlausu samkomulagi íslensks stórfyrirtækis við erlenda stjórnmálamenn. Í fjölmiðlum hér vestanhafs er latneska orðatiltækið „quid pro quo“ notað til að lýsa þeirri spillingu sem forsetinn er sakaður um. Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu missti Mulvaney, starfsmannastjóri Trump forseta, stjórn á sér og hvæsti á blaðamenn: „Þetta er daglegt brauð!“ (e. We do it all the time!) Það er hárrétt hjá honum. Quid pro quo þýðir einfaldlega „eitthvað fyrir eitthvað“ eða greiði fyrir greiða, þ.e. ég gef þér nokkuð gegn ákveðnum mótframlagi. Þegar það er orðað á þann hátt, þá sér hver maður að slíkur gjörningur er ekki rangur í sjálfu sér, heldur þvert á móti grundvöllur allra mannlegra samskipta, hvort sem um er að ræða viðskipti, pólitískar málamiðlanir eða persónuleg sambönd. Matarinnkaup, stjórnarsáttmáli og hjónaband fela öll í sér quid pro quo.

Hvar liggur spillingin?

Hvenær verður þá til vandamál? Siðrof verður þegar samningsaðili hefur ekki umboð til að bjóða eða þiggja tiltekin gæði og lögbrot verður þegar sá hinn sami hefur ekki lagalegar heimildir til þess. Umboð og lagaleg heimild eru hvort um sig nauðsynlegar forsendur réttlætanlegs samnings. Trump forseti hafði ekki umboð frá bandarísku þjóðinni til að beita hernaðaraðstoð í pólitískum tilgangi og réttarhöldin sem nú standa yfir eiga að komast að því hvort einnig hafi verið um lögbrot að ræða.

Í Samherjamálinu var líklega um bæði siðrof og lögbrot að ræða af hálfu samningsaðila. Namibískir stjórnmálamenn störfuðu ekki í umboði kjósenda sinna þegar þeir þáðu fé sem borið var á þá persónulega og þeir höfðu ekki lagalegar heimildir til að þiggja það. Í ljósi þess hafa þeir nú sagt af sér. Hluthafar og starfsmenn Samherja ásamt íslensku þjóðinni, sem hefur treyst fyrirtækinu fyrir auðlind sinni, gáfu Samherja ekki umboð til þessara viðskiptahátta og rannsaka þarf hvort og þá hvaða lög voru brotin séu þessar ásakanir réttar.

Ábyrgðin er beggja megin borðsins

Þeir sem hyggjast byggja málsvörn Samherja á slælegum innviðum þróunarríkis þurfa að muna það að samningur fer ekki fram nema setið sé beggja megin borðsins. Ef komist er að samkomulagi um siðlausan eða ólöglegan gjörning eru báðir samningsaðilar ábyrgir fyrir þeirri ákvörðun. Í tilviki Trump tókst honum ekki að fá Zelensky til að ganga til samninga, það tókst Samherja hins vegar. Að falla í freistni er ekki skárra þegar eftirlitskerfið er veikburða – það er jafnvel verra.

Höfundur er í námi í alþjóðlegum öryggismálum og ríkiserindrekstri við Yale háskóla í Bandaríkjunum.