Framáfólki í pólitík ber saman um að áhugi á þátttöku í stjórnmálum sé að glæðast á ný. Flokkarnir eru byrjaðir að stilla upp framboðslistum sínum og fjölmiðlar hafa vart undan að flytja fréttir af nýju fólki sem vill hasla sér völl í stjórnmálum. Þetta er jákvætt. Hatur á stjórnmálum og stjórnmálaflokkum stendur lýðræðinu fyrir þrifum og því mikið gleðiefni að stjórnmálaflokkarnir finni fyrir auknum áhuga á þátttöku í stjórnmálum.

Það er eftirtektarvert nú í aðdraganda kosninga hve margar konur hyggjast hasla sér völl á stjórnmálasviðinu. Þótt það eigi eftir að koma í ljós hvernig kynjaskiptingin verður í þinginu að kosningum loknum er ekki að sjá á þessu stigi að það halli á konur í aðdragandanum, nema síður sé.

Á undanförnum áratugum hafa konur eflt sjálfstraust sitt þannig í stjórnmálum, að þær sem komast til æðstu metorða, gera það á eigin verðleikum og metnaði. Þær þurfa hvorki kynjakvóta né fléttur.

Jafnréttisvitund hefur einnig fest sig í sessi í hugum kjósenda af öllum kynjum og framboðslistar sem ekki eru í sæmilegu kynjajafnvægi þykja einfaldlega ekki frambærilegir.

Þetta sjá flestir sem fylgjast með umræðunni. Samt heldur umræðan um ójöfnuð milli kynja í stjórnmálum áfram. Margar konur halda því enn fram að konur séu ítrekað útilokaðar frá þátttöku í stjórnmálum á grundvelli kyns síns. Það vakti til dæmis athygli um helgina hve kvenlegir nýkynntir framboðslistar Samfylkingarinnar í Reykjavík eru. Herskáar kvenréttindakonur láta þó ekkert stöðva sig í áróðri sínum og halda áfram að fullyrða, í andstöðu við raunveruleikann, að konum sé enn ýtt til hliðar til að rýma fyrir karlmönnum.

Þetta er leiðinleg orðræða svo ekki sé meira sagt, ekki síst vegna þess hve fáir treysta sér til að benda þeim á hið sanna, að þetta er beinlínis ósatt. Hið rétta er auðvitað að karlar gera vart annað í stjórnmálum í dag en að færa sig til að hleypa konum að. Þeir hafa flutt sig neðar á lista til að tryggja jafnvægi milli kynja, þeir hafa vikið úr oddvitasæti og jafnvel alveg af þingi. Karlar sýna konum, ef eitthvað er, meiri tillitssemi í íslenskum stjórnmálum en hægt er að ætlast til.

Það er fullt af öflugum, sterkum og ákveðnum konum í íslenskum stjórnmálum. Íslenskar stjórnmálakonur eru flestar bæði góðir hugsuðir og skörungar.

Þær konur, sem hanga í sjálfsvorkunn á hliðarlínunni, þurfa einfaldlega að taka sér þær til fyrirmyndar og hætta að grenja, eða fara að gera eitthvað annað.

Það þarf sterk bein til að vera í framlínu í stjórnmálum. Fólk sem hefur þau getur náð áhrifum óháð kyni, eins og breidd íslenskrar stjórnmálastéttar sýnir.

Þótt enn megi ótalmargt bæta í íslenskri stjórnmálamenningu má sjá fjölmörg batamerki eftir erfitt tímabil. Eitt dæmi er aukinn áhugi á þátttöku í starfi stjórnmálaflokka, sem forystufólk þeirra finnur fyrir. Fögnum þessum áhuga og ræktum hann. Höldum uppgjörinu áfram en með heiðarleikann í forgrunni. Eigum innistæðu fyrir umkvörtunarefnunum.