Hund átti ég eitt sinn svartan er kallaður var Gráni. Kom það þannig til að um svipað leyti átti ég hest sem hét Gráni og fannst mönnum ég vera þannig til höfuðsins að útilokað væri að ég gæti munað mörg nöfn. Var því hundurinn einatt kallaður Gráni þrátt fyrir að ég hafi upphaflega nefnt hann Hvít.

Ekki er þessu skrifelsi ætlað að útskýra nafngiftir, heldur segja frá því þegar Gráni bjargaði einfættum manni á Hofsósi frá því að verða fyrir bárujárnsplötu. Þannig var að hundurinn hafði nýlega fengið mig til þess að kaupa fyrir sig flösku af ákavíti en hann var dulítið fyrir sopann, gerði ég það því Gráni var rólegur með víni og sá lítið á honum. Einn ósið hafði hann þó fullur, en það var að leggjast í símhringingar.

Það er svo laugardagskvöld í september 1988 að hundurinn er að glerja sig og kominn í símastuð. Ég átti um þetta leyti gráan Ericsson-síma og man ég að allnokkur húðfita var á skífunni. Enda notaði ég símann mikið við símasölu á Nintendo-sjónvarpsspilum. Nema hvað, þarna situr hundurinn og hefur náð sambandi og heyri ég að hann spjallar við einfættan mann, en auðvitað vissi ég ekki þá að sá var á Hofsósi.

En það skipti engum togum að símtal hundsins varð til þess að maðurinn tafðist á leið sinni inn í rúm, en þegar hann kom þangað örlítið seinna fann hann konu sína í tveimur pörtum því bárujárnsplata hafði fokið inn um gluggann og klofið frúna þar sem hún beið „hans megin í rúminu“, eins og segir í DV frá þessum tíma.