Getur fjármálakefið verið grænt? Já, heldur betur. Um allan heim er í gangi þróun í þá átt að nýta fjármálakerfið í baráttunni gegn loftslagsvánni. Að hugsa hlutina upp á nýtt, horfa ekki aðeins á krónur og aura þegar að útlánastefnu kemur, heldur áhrifa til kolefnisjöfnunar. Þessa þróun má nú þegar sjá að einhverju leyti í íslenska bankakerfinu.

Ég hef áður kallað eftir því að við nýtum þá stöðu að íslenska ríkið er eigandi stórs hluta fjármálamarkaðar til að þróa hlutina þar í græna átt. Að nýta fjármálakerfið betur í baráttunni við loftslagsvána. Það eru hins vegar ekki aðeins viðskiptabankar sem hafa þar hlutverk, seðlabankar gera það líka.

Á þessum tímum umbreytinga vegna loftslagsvár er æ víðar farið að huga að því hvernig hægt er að nýta seðlabanka heimsins til að bregðast við hamfarahlýnun. Umbreytingaáhætta (e. transitional risk) er hugtak sem æ oftar heyrist í þessum kreðsum, en það nær utan um áhættuna sem kerfum heimsins stafar af ástandinu. Eðli kerfa er að verja sig en það er gríðarlega mikilvægt að sú vörn verði ekki meira af því sama.

Við lifum umbreytingatíma og það er gríðarlega mikilvægt í hvaða átt við stefnum. Það má ekki gerast að gamaldags lausnir séu nýttar til að takast á við vandamál nútímans, að við stefnum áfram eftir niðurkeyrðum brautum sem hafa fært okkur á þann stað sem við erum í dag.

Pierre Monnin er sérfræðingur hjá hugveitu sem sérhæfir í hlutverki seðlabanka í baráttunni við loftslagsvána. Hann hefur komið að því að greina það hvernig seðlabönkum verður best beitt til að viðhalda fjármálastöðugleika um leið og barist er gegn loftslagsvánni. Monnin mun verða gestur minn á hádegisfundi á Facebook 2. desember næstkomandi. Þar munum við ræða þessi mál og fá til liðs við okkur Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands. Ég hvet ykkur öll til að mæta.