Reykjavík hefur alla burði til þess að vera fyr­ir­mynd­ar­borg í heiminum þegar kemur að grænum leið­um. Reykjavík stefnir að kolefnishlutleysi 2040 en gæti jafnvel náð þessu markmiði tíu árum fyrr. Þetta er eitt mikilvægasta verkefni okkar borgarbúa fyrr og síðar. Grundvöllur þess er stórátak í samgöngum, borgarlínu, orkuskiptum og innleiðingu hringrásarhagkerfis. Við þurfum róttækar aðgerðir í loftslagsmálum. Bygging gas- og jarðgerðarstöðvarinnar GAJA í Álfsnesi er öflugasta aðgerð í loftslagsmálum í Reykjavík síðan hitaveiturnar voru reistar. Með henni verður mikill samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda og um leið skapast tækifæri. Þrátt fyrir mistök og byrjunarörðugleika getur GAJA orðið miðpunktur í nýjum, íslenskum endurvinnsluiðnaði, sem þörf er á að rísi. Á næsta ári mun sérsöfnun á lífúrgangi hefjast, þá mun GAJA starfa á réttum forsendum, fá gott hráefni og skila árangri í samræmi við það.

Ég vil láta skilgreina grænt atvinnusvæði í Reykjavík, búa til hagræna hvata og skilyrði fyrir græna starfsemi til að laða að græn fyrirtæki sem skapa störf. Græn tækifæri með hvötum eins og lægra orkuverði og gjöldum fyrir þá aðila sem uppfylla skilyrði. Miðstöð fyrir öfluga endurvinnslustarfsemi. Uppbyggingu á íslenskum endurvinnsluiðnaði sem nýtir þá orku og efnislegu afurðir sem verða til við meðhöndlun á 120 þúsund tonna úrgangi frá höfuðborgarsvæðinu. Hagsmunir höfuðborgarsvæðisins séu hafðir að leiðarljósi um bestu og hagkvæmustu lausnirnar. Verkefnin sameinuð á ákjósanlegum stað.

Hér eru mikil tækifæri í loftslagsmálum og sömuleiðis fjárfestingum og uppbyggingu. Byggja upp heildstætt endurvinnsluþorp þar sem GAJA gæti leikið meginhlutverk. Að ári taka ný lög við þar sem bannað verður að urða lífúrgang og samræmd söfnun hefst á endurvinnsluefnum. Þá skapast tækifæri til að byggja upp endurvinnsluþorp á einum stað í samvinnu við atvinnulífið. Mestu tækifæri 21. aldarinnar liggja nefnilega í ruslinu.

Búum til eitt heilsteypt endurvinnsluþorp – stórt skref í að innleiða hringrásarhagkerfi á Íslandi.