Þegar bíllinn er tekinn í skoðun og allt er ekki upp á tíu er litlum grænum miða með á­letruninni „ENDUR­SKOÐUN“ skellt á númera­plötuna. Sá veitir gálga­frest til að redda málunum svo bíllinn fari ekki í aksturs­bann. Ég fæ oftar en ekki grænan miða, enda væri Hyundai-inn betur nefndur Sálu­messa en Sónata.

Það er ó­þægi­legt að aka um á græna miðanum því hann sýnir að rétt eins og bíllinn þá sé eig­andinn lík­lega eitt­hvað gallaður líka. Af hverju ertu ekki löngu búinn að láta laga þetta? Af hverju ertu enn­þá að aka þessari druslu? Af hverju færðu svona lítið hár á hand­leggina?

Þetta eru allt spurningar sem aðrir öku­menn spyrja þig í hljóði þegar þeir fylgjast með þér fljóta pústandi í gegnum um­ferðina. Sá græni grefur þannig undan öllum til­raunum til að láta líta út sem maður sé með allt á hreinu. Það skiptir ekki máli þótt þú bjóðir eðli­legu vinum þínum upp á fínan hummus eða kaffi, sem er ekki instant, þegar þeir koma í heim­sókn – ef þeir sjá græna miðann í inn­keyrslunni er úti um þig. Hann er gluggi inn í myglaða sál.

Græni miðinn hefur þó kennt manni sitt hvað. Það er ekki ein­hver hug­ljómun sem leiðir til mann­bætingar svo maður sleppi kannski við miðann á næsta ári, heldur aukin þekking á flóknu líf­færa­kerfi bílsins og þeim þúsund­köllum sem við­hald þess krefst. Ég hafði ekki hug­mynd um til­vist hemlar­örs, tímareimar, bremsu­klossa eða púst­barka en nú veit ég sirka hvað þessir hlutir gera. Og hvað þeir kosta.