Ég hef sterkar taugar sem liggja vestur á firði. Ég hef notið þeirra forréttinda að helga nokkra kafla í minni bók Vestfjörðum, hef búið þar, starfað, spilað – elskað og grátið. Kaflarnir liggja ekki allir saman en mynda heild sem hefur haft mikil áhrif á mig. Og enn bíða kaflar óskrifaðir.

Sem sveitarstjóri fékk ég fólkið og menninguna, söguna og spekina beint í æð. Hver dagur eins konar masterclass í lífsleikni og alþýðuspeki.

Þannig er sagan af Grænuhlíðinni, sem ég heyrði í einum kaffitímanum, orðin að lífslykli sem ég nota reglulega.

Grænahlíðin er náttúrulegur skjólgarður fyrir sjófarendur. Þegar veðravítið í Djúpinu gerir vart við sig er hvergi betra að liggja í vari en undir Grænuhlíðinni. Þegar mótorvæðing skipaflotans reið yfir varð algjör bylting í sjósókn – aðgengi að miðunum opnaðist upp á gátt. Menn komust í betri mið lengra frá sinni heimahöfn. Þegar gerði eldsnöggt bál var alltaf fyrsta ráð að berjast heim af öllu afli – beint í miðju djöfulgangsins. Af þessu leiddi mikill mannskaði – mann‑
sögur sem hurfu í Djúpið. Nú liggja menn undir Grænuhlíðinni með akkerin úti og bíða. Bíða af sér ofviðrið. Sigla svo heim í björtu með yfirsýn og sléttari sjó.

Svo heyrðist í skúrnum; Grænahlíðin stendur öllum til boða þegar gerir bál í lífinu. Þá er best að taka engar stórar ákvarðanir, engin uppgjör eða djöflast í heimahöfn. Heldur bíða í vari. Leyfa hríðinni að öskra beint í bakið. Svo styttir upp. Djúpið speglar himnana á leiðinni heim. Tími ákvarðana, uppgjörs og heimferðar.