Við þær aðstæður sem nú eru uppi er eðlilegt að öll okkar orka og athygli beinist að því að kveða niður kórónufaraldurinn og lágmarka þann félagslega og efnahagslega skaða sem af honum hlýst. Það breytir því þó ekki að loftslagsváin er stærsta áskorun sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir. Framtíð lífs á jörðinni veltur á því að ríki heims taki höndum saman um róttækar breytingar á framleiðslu og lifnaðarháttum. Við Íslendingar erum rík þjóð og búum yfir gnótt endurnýjanlegra auðlinda. Þess vegna er fráleitt að við séum enn eftirbátur annarra Evrópuríkja í loftslagsaðgerðum og styðjumst við veikari markmið en Evrópusambandið og hin Norðurlöndin.

Dæmin sanna að smáríki geta haft afgerandi áhrif á alþjóðavettvangi með því að taka frumkvæði, sýna gott fordæmi og berjast fyrir breytingum. Við höfum skyldum að gegna við heimsbyggðina og komandi kynslóðir og þurfum að taka stærri skref, setja okkur metnaðarfyllri markmið og ráðast í miklu markvissari aðgerðir en ríkisstjórnin hefur boðið upp á til þessa.

Nú þegar heimsfaraldur kórónuveiru hefur leitt af sér fjöldaatvinnuleysi og framleiðsluslaka er réttast að forgangsraða þeim loftslagsaðgerðum sem hafa örvandi áhrif á eftirspurn og atvinnustig í landinu frekar en leggja auknar álögur á fólk. Ríkið þarf að nýta góð lánakjör og fjárfestingasvigrúm til að ráðast í kraftmiklar aðgerðir sem auka framleiðslugetu þjóðarbúsins til lengri tíma, skapa atvinnu og undirbyggja nýjar og grænar útflutningsstoðir. Í Ábyrgu leiðinni, efnahags­áætlun Samfylkingarinnar fyrir árið 2021, leggjum við til að stofnaður verði grænn fjárfestingasjóður með fimm milljarða í stofnfé, sem styðji við loftslagsvæna atvinnuuppbyggingu og grænan hátækniiðnað. Orkuskiptum verði hraðað, ráðist í kraftmikið skógræktar­átak, stuðning við grænmetisframleiðslu, skipulega uppbyggingu iðngarða og stóreflingu almenningssamgangna um allt land. Með þessu er hægt að slá tvær flugur í einu höggi: örva eftirspurn og atvinnu en um leið skapa grænna samfélag á Íslandi og auðvelda okkur að ná metnaðarfyllri loftslagsmarkmiðum á næstu árum.