Það töpuðu margir í þing­lokum Al­þingis. Þau sem trúðu því að mið­há­lendis­þjóð­garður myndi verða stofnaður á þessu kjör­tíma­bili, eða þau sem héldu í von um breytingar á stjórnar­skrá. En það voru líka sigrar á þing­loka­sprettinum. Einn af þeim var þegar Al­þingi sam­þykkti að fela ríkis­stjórn Ís­lands að vinna að þings­á­lyktun Sam­fylkingarinnar um græna at­vinnu­byltingu. Þings­á­lyktunin hefur það mark­mið að fjölga störfum, örva eftir­spurn og styðja við lofts­lags­væna verð­mæta­sköpun á Ís­landi. Til­lagan er í sam­hengi við al­þjóð­legar lofts­lags­skuld­bindingar Ís­lands í ljósi efna­hags­sam­dráttar, sögu­legs fjölda­at­vinnu­leysis og fram­leiðslu­slaka vegna kórónu­veirufar­aldursins. Til að ná þessu felur þings­á­lyktunin í sér 10 eftir­farandi að­gerðir;

1) Grænn fjár­festingar­sjóður

Komið verði á fót grænum fjár­festingar­sjóði af hálfu hins opin­bera sem leggur sjóðnum til 5 milljarða hluta­fé. Sjóðnum ber að leita eftir sam­starfi við einka­fjár­festa og á að styðja við þróun lofts­lags­lausna, græns há­tækni­iðnaðar og aukið vægi lofts­lags­vænnar at­vinnu­upp­byggingar á Ís­landi. Það hefur verið skortur á fjár­festingu í fyrir­tækjum og verk­efnum sem skila nægi­legum sam­drætti í losun innan tíma­ramma að­gerða­á­ætlunar í lofts­lags­málum. Mark­mið og árangurs­mæli­kvarðar verða að vera mjög skýrir. Land­sam­göngur, um­svif skipa og orku­fram­leiðsla eru þau svið sem vega þyngst í megin­mark­miðum að­gerða­á­ætlunar í lofts­lags­málum sem þarf að taka mið af í fjár­mögnunar­á­ætlun sjóðsins, á­samt stefnu Vísinda- og tækni­ráðs og góðum stjórnar­háttum í fé­lögum sem hann fjár­festir í. Grænar fjár­festingar þurfa líka að vera arð­bærar svo virkja megi al­menna fjár­festa. Fjár­hags­legar í­vilnanir til grænna fjár­festinga til við­bótar við um­hverfis­gjöld og sann­gjarnt gjald á losun gróður­húsa­loft­tegunda er skil­virk leið til að örva grænar fjár­festingar til að ná fram kol­efnis­hlut­leysi.

2) Metnaðar­fyllri lofts­lags­mark­mið

Í þings­á­lyktunar­til­lögunni er kveðið á um að um­hverfis- og auð­linda­ráð­herra hafi for­göngu um að mótuð verði ný að­gerða­á­ætlun í lofts­lags­málum sem geri ráð fyrir alla­vega 60% sam­drætti í losun gróður­húsa­loft­tegunda fyrir árið 2030 miðað við árið 2005. Mark­mið um kol­efnis­hlut­leysi árið 2040 verði fest í lög, skerpt verði á sjálf­stæði og að­halds­hlut­verki lofts­lags­ráðs og stjórn­sýsla lofts­lags­mála ef ld. Í um­sögnum við málið á Al­þingi kom fram skýrt á­kall um metnaðar­fyllri lofts­lags­mark­mið. Ein af lausnum til þess er aukin og bætt nýting inn­lendra, endur­nýjan­legra orku­gjafa í stað jarð­efna­elds­neytis. Upp­bygging, þróun og styrking raf­orku­flutnings­kerfisins styður líka vel við á­ætlanir um orku­skipti, meðal annars vegna raf­væðingar hafna. Lög­festing mark­miða Ís­lands í lofts­lags­málum er á­ríðandi eins og Finn­land og Noregur hafa gert.

3) Efling al­mennings­sam­gangna

Efling al­mennings­sam­gangna er einn stærsti liðurinn í því að ná mark­miðum um kol­efnis­hlut­leysi. Styrkja þarf al­mennings­sam­göngur um allt land því það eykur val­kosti al­mennings og auð­veldar ferða­lög á milli lands­hluta með strætis­vagni. Í efna­hags­á­standinu í kjöl­far kórónu­veirufar­aldursins er kjörið að flýta fram­kvæmdum á Borgar­línu sem búa til störf og skila miklum lofts­lags­á­vinningi. Að auki þarf rausnar­legt við­bótar­fram­lag til upp­byggingar stofn­leiða fyrir hjól­reiðar.

4) Hröðun orku­skipta

Það er brýnt að ráðast í mark­vissar að­gerðir til að hraða orku­skiptum á láði og legi. Styðja þarf enn frekar við upp­byggingu raf­hleðslu­stöðva um allt land með það fyrir augum að ný­skráningu bensín- og dísil­bíla verði hætt árið 2025. Það er metnaðar­fyllra en árið 2030 eins og nú­verandi ríkis­stjórn VG, Fram­sóknar­flokksins og Sjálf­stæðis­flokksins gerir. Stefna skal að því að tvö­falda fram­lög til Orku­sjóðs.

5) Sterk sveitar­fé­lög og fjár­festing í nær­sam­fé­laginu

Við­spyrnan eftir kóróna­veirufar aldurinn verður líka að eiga sér stað í nær­sam­fé­laginu. Því er lagt til að ríkis­sjóður hafi milli­göngu um hag­stæðar lán­veitingar til sveitar­fé­laga vegna lofts­lags­vænna fjár­festinga og auka­fram­lag til sóknar­á­ætlana lands­hluta árið 2021.

6) Kol­efnis­binding og bætt land­nýting

Ráðist verði í kraft­mikið átak í skóg­rækt, land­græðslu og endur­heimt vot­lendis, birki­skóga og kjarr­lendis. Stuðningur við land­bóta­verk­efni frjálsra fé­laga­sam­taka verði stór­aukinn og mark­viss vinna sett af stað við endur­skoðun styrkja­kerfis og skatt­um­hverfis til að ýta undir á­byrga land­nýtingu og gera bændum kleift að ein­beita sér í auknum mæli að kol­efnis­bindingu, endur­heimt vot­lendis og upp­græðslu.

7) Mennta­sókn

Stutt verði enn frekar við náms­tengd vinnu­markaðsúr­ræði fyrir at­vinnu­leit­endur og náms­fram­boð aukið með auknum fram­lögum til starfs­menntunar, fram­halds­fræðslu, sí­menntunar­stöðva, starf­sendur­hæfingar og vinnu­staða­náms. Nám í um­hverfis- og garð­yrkju­fræðum verði tryggt með starfs­námi á fram­halds­skóla­stigi, að­gengi að tækni­fræði­námi utan höfuð­borgar­svæðisins aukið og stutt verði við upp­byggingu há­skóla­úti­bús á Austur­landi.

8) Upp­bygging iðn­garða

Nauð­syn­legur hluti af grænni at vinnu­byltingu er að skapa um­hverfi sem nýtist til fjöl­breyttrar at­vinnu- og verð­mæta­sköpunar og fjölga tæki­færum fyrir góð tækni­störf. Það þarf til dæmis að stór­auka rann­sóknir og þróun hér­lendis á sviði fram­leiðslu og nýtingar á endur­nýjan­legu elds­neyti. Á­ætlana­gerð á þessu sviði hefur verið fremur al­menn. Nýting vist­væns elds­neytis á skipum er dæmi um ný­sköpunar­verk­efni sem brýnt er að fjár­magna og skatta­í­vilnanir geta líka liðkað fyrir fjár­festingu í breytingum á vél­búnaði skipa eða ný­smíði hrein­orku­skipa. Skipa þarf starfs­hóp um skipu­lega upp­byggingu iðn­garða á Ís­landi þar sem virði hreinnar orku er há­markað, svo sem til upp­byggingar í mat­væla­iðnaði, líf­rænni elds­neytis­fram­leiðslu, líf­tækni og garð­yrkju. Liðka þarf fyrir reglu­um­hverfi fyrir slíkri starf­semi.

9) Stuðningur við listir og menningu

Styðja þarf enn frekar við skapandi greinar og listir, enda í sam­ræmi við aukinn fjöl­breyti­leika at­vinnu- og verð­mæta­sköpunar. Fram­lög til launa­sjóða lista­manna verði stór­aukin og komið verði enn frekar til móts við menningar­stofnanir sem orðið hafa fyrir tekju­tapi vegna sam­komu­banns. Endur­greiðslur á virðis­auka­skatti til fram­leið­enda kvik­mynda og sjón­varps­efnis verði hækkaðar og Ís­land gert að á­kjósan­legum stað til full­vinnslu kvik­mynda.

10) Stór­sókn í ný­sköpun og þróun

Ráðist verði í heild­stæða greiningu á því hvernig bæta megi reglu­verk og nýta skatta­lega hvata til að treysta sam­keppnis­hæfni Ís­lands á sviði ný­sköpunar, rann­sókna og þróunar og tryggja hug­verka- og há­tækni­iðnaði hag­felldari rekstrar­skil­yrði. Fram­lög til opin­berra hluta ný­sköpunar og rann­sókna og þróunar, en þau fram­lög hafa lækkað mjög undan­farin ár. Fram­lög til Tækni­þróunar­sjóðs, Rann­sókna­sjóðs og Inn­viða­sjóðs verði því aukin og úr­ræðið Stuðnings-Kría full­fjár­magnað.

Með grænu at­vinnu­byltingunni er hægt að slá tvær flugur í einu höggi: Örva eftir­spurn og at­vinnu í einka– og opin­bera geiranum. En um leið skapa grænna og sjálf­bærara sam­fé­lag á Ís­landi, stíga fastar til jarðar í lofts­lags­málum en nú og setja metnaðar­fyllri lofts­lags­mark­mið til næstu ára. Einka­markaðurinn mun aldrei einn og sér leysa stóra vanda­málið, sem hlýnun jarðar er. Það er líka sam­fé­lags­lega nauð­syn­legt að byggja græna at­vinnu­upp­byggingu með sann­gjörnum um­skiptum í lofts­lags­að­gerðum. Til þess þarf þétt sam­starf og skýra pólitíska for­ystu til að tryggja að við­spyrnan eftir heims­far­aldurinn sam­ræmist al­þjóð­legum skuld­bindingum okkar í lofts­lags­málum.