Þær aðgerðir sem heilbrigðisyfirvöld og almannavarnir hafa gripið til vegna útbreiðslu kórónaveirunnar virðast vera að skila tilætluðum árangri. Samkvæmt nýju spálíkani fylgir faraldurinn enn bestu spá. Vöxturinn er hægur og línulegur. Þetta getur þó breyst hratt og því afar mikilvægt að almenningur haldi áfram að fylgja fyrirmælum yfirvalda.

Samkvæmt fyrrnefndu spálíkani mun faraldurinn ná hámarki fyrstu vikuna í apríl. Rætist hins vegar svartsýna spá líkansins yrði hámark faraldursins viku síðar. Gert er ráð fyrir því að mesta álagið á spítala og gjörgæsludeildir verði skömmu fyrir miðjan apríl. Það er því ljóst að komandi dagar og vikur geta reynt verulega á innviðina.

Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að nokkur fjöldi ábendinga hafi borist yfirvöldum um brot á hinu herta samkomubanni sem tók gildi í síðustu viku. Sem betur fer virðast sögur af fjölmennum íþróttaæfingum ekki eiga við rök að styðjast. Þá virðast einhver brot byggja á misskilningi eða rangri túlkun á reglum samkomubannsins. Vonandi er það raunin með flest þessara meintu brota því það er grafalvarlegt mál ef fólk tekur ekki mark á þessum reglum. Slík brot geta teflt í tvísýnu þeim góða árangri sem náðst hefur.

Það er ekki að ástæðulausu að gripið hefur verið til jafn íþyngjandi aðgerða og samkomubann er. Búast má við því að enn muni nokkur tími líða þangað til óhætt verður að slaka á þessum aðgerðum. Þolinmæði og æðruleysi eru bestu ráðin í þessu nánast óraunverulega ástandi sem nú ríkir.

Nú er liðinn réttur mánuður frá því fyrsta smitið var staðfest á Íslandi. Breytingarnar sem orðið hafa á samfélaginu á þessum tíma eru ótrúlegar og hefðu raunar þótt óhugsandi fyrir ekki svo löngu. Stjórnvöld á Íslandi treystu allt frá upphafi faraldursins ráðleggingum fagfólks og hafa byggt áætlanir sínar samkvæmt því. Fyrir það bera að þakka því það er alls ekki sjálfgefið. Við þurfum ekki að leita langt til að finna dæmi um stjórnvöld sem hafa tekið ákvarðanir þvert gegn ráðleggingum sérfræðinga í sóttvörnum og faraldsfræði. Víða sváfu yfirvöld á verðinum og gripu allt of seint til aðgerða sem voru þá ansi harkalegar.

Þá er það áhyggjuefni að andlýðræðisleg öfl eru að nýta sér aðstæðurnar. Þannig samþykkti ungverska þingið í gær neyðarlög sem gefa Victor Orban, forsætisráðherra landsins, einræðisvald til að takast á við COVID-19 faraldurinn. Þrátt fyrir hörð andmæli stjórnarandstöðunnar var frumvarpið samþykkt án þess að tímamörk væru á þessum auknu völdum forsætisráðherrans.

Hér hefur yfirvöldum auðnast að koma almenningi í skilning um alvarleika málsins án þess þó að skapa andrúmsloft ótta og vantrausts. Það er ekki svo lítið afrek.