Árið 1004 var María Argyropoulina, frænka Miklagarðskeisara, gefin syni hertoga Feneyja. Við komuna til Ítalíu var María með í farteskinu tvo gaffla úr gulli sem hún borðaði með í brúðkaupi sínu. Feneyingar, sem vanir voru að borða með höndunum, voru slegnir. Matur var gjöf drottins. Að vilja ekki snerta himneska gjöfina var móðgun við almættið. En guð náði fram hefndum. Þegar María lést árið 1007, er plága reið yfir Feneyjar, töldu heimamenn ljóst að þar færi refsing himnaföðurins fyrir gafflanotkunina. Næstu fjögur hundruð ár sást vart gaffall í allri Evrópu.

Siðferðið og baunaskálin

Nýverið fór fram umræða á Alþingi um frumvarp Miðflokksins og tveggja Sjálfstæðismanna um að kristinfræðikennsla verði aftur tekin upp í grunnskólum. Telja flutningsmenn slíkt nám mikilvægt fyrir „siðfræðilegan, siðferðilegan og félagslegan þroska“. Ekki sé hægt að „skilja menningu okkar nema að hafa þekkingu á kristnum gildum“. Frumvarpið er gott innlegg inn í gafflaumræðuna árið 1007.

Mannfræðingurinn Oliver Scott Curry var sæmdur heiðursorðu Breska húmanistafélagsins á dögunum fyrir rannsóknir sínar á siðferði. Curry segist vera „heimspekingur í bataferli“ sem leitist við að svara spurningum hugvísindanna með aðferðafræði raunvísindanna. Í stærstu rannsókn sinnar tegundar skoðaði Curry siðferðisgildi í sextíu samfélögum. Niðurstaða rannsóknarinnar sýndi að sama hvar stigið var niður fylgdu öll samfélög, óháð menningu og trúarbrögðum, sömu sjö siðferðisreglunum.

Gaffallinn hafði að endingu betur í baráttunni við almættið. Ítalir tóku gaffalinn í sátt á 15. öld sem vörn gegn klístruðum fingrum þegar sykraðir ávextir komust í tísku. Gaffallinn náði fótfestu litlu síðar í Norður-Evrópu þegar ítalska aðalskonan Katrín af Medici giftist verðandi konungi Frakklands árið 1533 en Katrín er sögð hafa flutt inn til Frakklands ísuppskriftina, tískufatnað, bankakerfið, ballettinn og gaffalinn. Elísabet 1. Englandsdrottning var ósannfærð um ágæti áhaldsins og sagði það „ófágað athæfi að reka hluti í gegn“. En þrjátíu árum eftir andlát hennar lýsti Karl 1. Englandskonungur því loks yfir að það væri víst „siðsamlegt að borða með gaffli“.

Í greinargerð með frumvarpi Miðflokksins um aukna kristinfræðikennslu segir að það sé „mikilvægt að þekkja grundvöll siðferðisskoðana“. Í þessari viku eru hundrað og fimmtíu ár frá því að bókin Hvernig maðurinn kom til eftir Charles Darwin kom út. Þar leiddi Darwin líkur að því að siðferði eigi sér líffræðilegar rætur og hafi þróast með manninum í gegnum náttúruval. Síðan þá hafa slíkar skýringar fengið byr undir báða vængi. Nú síðast í rannsóknum Oliver Scott Curry.

Hugmyndir mannsins eru í stöðugri þróun. Meira að segja gaffallinn stendur ekki í stað. Á sautjándu öld komust grænar baunir í tísku meðal fransks aðalfólks. Gaffallinn, sem þá hafði aðeins tvo tinda, var illa til þess fallinn að skófla hnöttóttum kræsingunum upp í fágaða munna. Upphófst aldalöng umbótasaga á sviði gafflahönnunar þar sem tindum var fjölgað og laginu breytt.

Miðflokkurinn er jafnlíklegur til að finna undirstöðu siðferðisins og franskur aðalsmaður með tveggja tinda gaffal er að komast niður á botn baunaskálar. Af fortíðarþrá leita Miðflokksmenn róta siðferðisins í kennslubókum um kristinfræði frá eigin grunnskólagöngu. En það sendir enginn skip út á ballarhaf með kort þar sem jörðin er teiknuð flöt. Það dytti fáum í hug að halda því fram að kórónaveirufaraldurinn sem nú ríður yfir heimsbyggðina stafi af of mikilli gafflanotkun þótt það hafi verið ályktunin sem Feneyingar drógu árið 1007.

Shakespeare ritaði í Rómeó og Júlíu: „Hvað felst í nafni?“ Kristin gildi eru ekki annað en mannleg gildi.