Mánudagar eiga það til að vera erfiðir. Fyrir miðaldra karlmann í yfirvigt má segja að í dag sé mánudagur allra mánudaga. Úrvinda rita ég þennan pistil eftir að hafa gengið upp að eldgosinu í gærkvöldi og komið heim um miðja nótt – kaldur, hrakinn og alveg jafn þungur.

Það var bara ekki hægt að sleppa þessu. Undanfarna viku hef ég fylgst með öllum sem ég þekki, birta myndir á Facebook af slíkri ákefð að engu líkara er að engill á himnum muni deyja, ef gosmynd er ekki póstað.

Nema hvað, ég hrökklaðist þessa grýttu leið ásamt þúsundum annarra sem fæstir voru klæddir eftir aðstæðum. Eftir því sem maður verður miðaldraðri þá fer maður ósjálfrátt að gera fleiri og alvarlegri athugasemdir við hegðun annarra. Ég heyrði hnussið í sjálfum mér þegar ég gekk fram hjá menntaskólastúlkum í kálfasíðum leggings-gallabuxum og flatbotna strigaskóm og ekki skánaði geðið þegar ég festist fyrir aftan eitthvert idjót sem bar utan á sér hátalarakerfi í hæstu stillingu með lagalistanum úr Hringadróttinssögu. „Þetta unga fólk!“ muldraði ég í hljóði.

Í myrkrinu horfði ég á mannmergðina sjúga upp í nefið og hnerra framan í samferðafólk sitt á meðan hver sófakartaflan á fætur annarri hlunkaðist á rassgatið á ísilagðri gönguleiðinni, með óafturkræfum jarðvegsbreytingum í för með sér, sem aldrei fóru í umhverfismat. Sóttvarnalög voru ekki ofarlega í huga göngugarpa þetta kvöld, þrátt fyrir krúttleg skilti sem minntu gesti á tveggja metra regluna. Af ótta við sóttvarnasektir þorði ég ekki að hjálpa þeim slösuðu á fætur.

En að öllu þessu slepptu þá var upplifunin einstök. Fegurðin stórkostleg. Eins og beint úr andans efstu hillu.