„Hvað get ég gert fyrir þig?“ spurði konan á tannlæknastofunni svo ábúðarfull að ég ákvað að bregða á sprell og sagði: „Ég held ég hafi gleymt fölsku tönnunum mínum hérna í gær.“ Konan gerir sér þá lítið fyrir, snýst á hæli og hrópar inn í tannlæknastofuna: „Angela! Hefur þú nokkuð séð góminn hans Jóns?“

Þetta var mér ægilegt áfall en þó fæ ég ekki betur séð en ég hafi nokkuð gott af uppákomum sem þessum. Þannig er mál með vexti að ég er hræðilega áhrifagjarn og vinnu minnar vegna umgengst ég mikið krakka og ungt fólk í blóma lífsins og fyrr en varir held ég sjálfan mig vera fagurgulan fífil á túni uns einhver, eins og konan á tannlæknastofunni, blæs á biðukolluna. Svo eru ranghugmyndir mínar það ásæknar að ég má ekki grípa í bassa öðruvísi en ég heyri Eric Clapton í huga mínum spyrji hvar í andskotanum ég hafi verið þegar hann stofnaði Cream. Allan þennan misskilning verður lífið síðan að uppræta svo ég fer oft á tannlæknastofuna.

En svo er náttúrlega hægt að taka Don Kíkóta á þetta og laga heiminn að órum sínum og kæra sig kollóttan um þá sem vilja rétta mann af. Rétt eins og hann gekk í hlutverk riddara, gerði rakaraskál að hjálmi og myllu að risa gæti ég gengið um bæinn í þeirri góðu trú að ég sé kornungur bassasnillingur. En hvort sem maður segir raunveruleikanum stríð á hendur eða stendur eins og biðukolla í vindi veiruleikans þá verður þú fyrr eða síðar gómaður.