Óvissan vegna farsóttarinnar hefur lamað alla fjárfestingu. Horfur um atvinnuvegafjárfestingu, sem hefur dregist stöðugt saman frá 2018, hafa þannig líkast til ekki verið verri frá fjármálahruninu og samkvæmt nýrri spá Seðlabankans er útlit fyrir að hún minnki um 20 prósent á þessu ári. Það er verulegt áhyggjuefni en hvenær hún tekur við sér helst í hendur við væntingar um að faraldrinum sé að ljúka. Ákvörðun Seðlabankans um að lækka vexti enn frekar, þvert á spár greinenda, var því kærkomin og ætti meðal annars að beina því gríðarmikla fjármagni á innlánsreikningum í bönkunum á um þriggja prósenta neikvæðum raunvöxtum yfir í áhættusamari fjárfestingar, hvort sem það er í nýsköpunarfyrirtækjum eða á hlutabréfamarkaði. Við þurfum á því að halda eigi okkur að takast að ná kröftugri viðspyrnu nú þegar bóluefni gegn veirunni er í augsýn.

Seðlabankinn mun samt þurfa að gera meira. Vaxtalækkanir hans hafa ekki skilað sér til fyrirtækjanna í formi lægri fjármögnunarkostnaðar og þá verða langtímavextir á markaði, sem eru mun hærri hér á landi í samanburði við önnur opin lítil hagkerfi, að lækka vilji bankinn sjá fjárfesta taka meiri áhættu. Að öðrum kosti mun sá hvati ekki vera til staðar ef raunvextir fara að hækka skarpt á nýju ári samtímis því sem verðbólgan gengur niður, eins og spá Seðlabankans gerir ráð fyrir, með gengisstyrkingu krónunnar. Á þessu hefur Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri skilning en á árlegum Peningamálafundi Viðskiptaráðs í gær boðaði hann að „næsta ár yrði ár peningaprentunar“ sem myndi felast í kaupum á ríkisskuldabréfum. Sú afgerandi yfirlýsing var tímabær og til þess fallin að eyða óvissu um að mikil fjármögnunarþörf ríkissjóðs á komandi árum muni þrýsta upp ávöxtunarkröfu ríkisbréfa.

Íslenskir fjármagnseigendur hafa löngum verið of góðu vanir og fengið trygga áhættulausa ávöxtun með kaupum á ríkisbréfum.

Fjarvera Seðlabankans fram til þessa þegar kemur að skuldabréfakaupum hefur sætt gagnrýni. Seðlabankastjóri hefur sjálfur gefið lítið fyrir hana og þvert á móti bent á að bankinn hafi viljað sjá langtímavexti hækka í því skyni að „þurrka upp kerfið“ og ná þannig stöðugleika á krónunni á meðan hann beitti gjaldeyrisinngripum þegar stærsti erlendi eigandi ríkisbréfa í krónum seldi allt sitt á fáum mánuðum. „Það hefði verið fáránlegt af okkur að fara inn á skuldabréfamarkaðinn á sama tíma og taka við bréfunum sem var verið að selja út,“ sagði Ásgeir í viðtali við Fréttablaðið. Það markmið Seðlabankans hefur tekist og forsendur um leið skapast, að mati bankans, til að ráðast í myndarleg skuldabréfakaup.

Í fyrsta sinn í lýðveldissögunni er Seðlabankinn í þeirri stöðu að geta beitt vaxtatækinu, ásamt öðrum óhefðbundnari aðgerðum, til að lækka fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja á krepputímum og styðja við efnahagsbata. Lækkun vaxta er hins vegar ekki aðeins ætlað að búa til ódýrt lánsfé, eins og seðlabankastjóri hefur réttilega bent á, heldur er markmiðið einnig að ýta fjárfestingu yfir í eignamarkaði og hlutafé fyrirtækja. Íslenskir fjármagnseigendur hafa löngum verið of góðu vanir og fengið trygga áhættulausa ávöxtun með kaupum á ríkisbréfum. Það þarf nú að breytast. Viðbrögð fjárfesta á fjármálamarkaði að undanförnu gefa til kynna að þeir eigi enn eftir að meðtaka þær grundvallarbreytingar sem fylgja lágvaxtaumhverfi.