Þegar ég fer í vinnuna segir eiginmaður minn iðulega: „Gangi þér vel.“

Mér finnst það fallegt. Hugrekki og birta út í daginn.

Þegar dóttir mín þriggja ára kvaddi mig í gær sagði hún: „Góða skemmtun, mamma.“

„Ha?“ sagði ég.

„Góða skemmtun í vinnunni,“ sagði hún skælbrosandi og lyfti upp öðrum þumalfingrinum hvetjandi.

Við hjónin segjum gangi þér vel við hvort annað en góða skemmtun við börnin þegar við förum út í daginn. Ég er búin að munstra heilann á mér svo að ég sé alltaf á leið í krefjandi aðstæður og átök, en hún heldur í gleðina sína.

Ég valdi mér minn vinnustað en ekki hún.

Ég valdi mér þessar krefjandi aðstæður með tilheyrandi átökum. Ég eyddi fullt af monnís og árum í að mennta mig og sveifla mér einn upp og tvo til hliðar til þess að geta valið mér að gera einmitt það sem ég geri hverju sinni.

Ég hlýt að hafa séð fyrir mér að það myndi veita mér gleði.

Það hlýtur að vera tilgangurinn.

Við eyðum að meðaltali fleiri vökustundum í vinnunni á virkum dögum en með fjölskyldunni okkar. Það verður að vera gaman þar. Krefjandi – en gaman.

Á mánudaginn ætla ég að kveðja eiginmanninn með: „Góða skemmtun,“ þegar hann fer í vinnuna sem hann sérmenntaði sig í og valdi sér. Ef það orðfæri á ekki við almennt, þó auðvitað séu ekki allir dagar gleðisprengjur – ætla ég endurskoða í hvað ég eyði tíma mínum.

Lífið er of stutt fyrir leiðinlega vinnu og átök alla daga.