Út er komin Handbók athafnamannsins um gerð rekstrar- og viðskiptaáætlana eftir Pál Kr. Pálsson verkfræðing. Markmið bókarinnar, eins og höfundurinn lýsir, er að færa notendum hennar einfalda og handhæga „verkfæra­kistu“ til að nýta við gerð rekstrar- og/eða viðskiptaáætlana, arðsemisútreikninga, verðmats viðskiptatækifæra og fyrirtækja og kostnaðargreiningar. Ekki verður betur séð en mjög vel hafi tekist til og á höfundur þakkir skildar fyrir frumkvæðið.

Í upphafi bókarinnar er fjallað um hinn mikilvæga mun sem er á rekstraráætlun og viðskiptaáætlun. Rekstraráætlunin snýr að áætlunum til skemmri tíma í starfandi fyrirtæki. Áætlunin sjálf, eftirfylgni með framvindu í rekstrinum og árangursmælingar hvar sem við verður komið eru forsenda þess að fyrirtæki þróist og dafni. Um þetta er ekki deilt. Viðskiptaáætlunin er af öðru tagi. Hún getur vissulega snúið að nýrri viðskiptahugmynd í starfandi fyrirtæki en í umfjöllun bókarinnar er horft til nýrra viðskiptahugmynda og starfs frumkvöðulsins. Grunnspurning viðskiptaáætlunar er þessi: Er þörf á vörunni sem á að þróa, hver er lausn frumkvöðulsins og hvaða fólk ætlar að framkvæma áætlunina? Þeir sem fjalla um viðskiptahugmyndir/áætlanir eins og fjárfestingarsjóðir skoða bæði viðskiptahugmyndina en ekki síður teymið sem ætlar að framkvæma áætlunina og eftir atvikum leitar að fjárfestum til að koma inn í nýstofnuð félög.

Höfundurinn hefur breiðan bakgrunn á sviði sprotastarfsemi, svo og rekstri stórra fyrirtækja. Reynslan af því svo og kennslu gerir hann vel í stakk búinn til að tefla fram sinni sýn á hvað eigi að gera, í hvað röð og hvað ber að varast. Bókin er verkfærakista sem auðvelt er að lesa. Hún mun nýtast við kennslu á háskólastigi sem og þeim fjölda frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref í viðskiptalífinu. Bók eins og þessi hjálpar til að halda til haga hvaða þættir þurfa að koma inn í viðskiptaáætlunina; hugmyndaleitin, markaðs- og markhópagreining, framkvæmdaáætlun, fjárhagsáætlun, mat á virði viðskiptahugmyndar svo og hvert teymið er.

Umhverfi frumkvöðla hérlendis hefur batnað mjög á liðnum árum enda sprettur fram fjöldi áhugaverðra frumkvöðlaverkefna á hverju ári. En frumkvöðlastarf krefst þolinmæði. Hér á landi er öflugt styrkjakerfi fyrir frumkvöðla. Má þar nefna Tækniþróunarsjóð, Rannís og fleiri, samhliða endurgreiðslu frá ríkinu á hluta þróunarkostnaðar, oftast launakostnaðar. Við stofnun nýsköpunarfyrirtækis þarf að sjálfsögðu einnig að leita fjármögnunar í viðskiptalífinu. Þar er að finna fjölbreytta flóru einkafjárfesta og fjárfestingarsjóða sem hafa það hlutverk og sjá sér hag í því að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum. En eins og kemur fram í bók Páls Kr. Pálssonar er mikilvægt að vanda valið þegar leitað er að meðfjárfestum, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir.

Í upphafi skyldi endinn skoða á vel við í þessari umræðu. Mikilvægt er við útfærslu á viðskiptahugmynd og þróun fyrirtækis á grundvelli hennar að hafa skýra sýn á sinn markhóp, hvert skuli stefnt, í hvaða áföngum og hvenær fjárfestar geti reiknað með að geta selt sinn hlut. Það er jú markmið fjárfestanna, að selja sína eignarhluti að nokkrum árum liðnum helst með ávöxtun og snúa sér að næstu fjárfestingu. 

Höfundur er fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.