Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, var tekinn tali í útvarpsþættinum Víðsjá á Rás 1 í vikunni. Kári hefur ástríðu fyrir bókmenntum. Hann lítur þó ekki aðeins á þær sem afþreyingu. Kári sagði bókmenntir mikilvægar vísindunum. Vitnaði hann í kenningar kanadíska bókmenntafræðingsins Northrop Frye sem „hélt því fram að ef þú ætlaðir að rækta hóp af góðum vísindamönnum þá ættirðu ekki að byrja að kenna þeim raungreinar snemma, þú ættir að láta þá lesa góðar bókmenntir. Vegna þess að tungumálið sé tækið sem við hugsum með og til þess að þjálfa menn í að hugsa nýjar hugsanir þá sé best að láta menn lesa mikið af góðum bókmenntum.“

Kári og Frye eru ekki einir um þessa skoðun. Mervyn King var bankastjóri Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, í efnahagskreppunni 2007-2008. Í viðtali nýverið leitaðist hann við að svara spurningunni: Hvernig má taka góðar ákvarðanir á tímum þegar óvissa er alltumlykjandi? Þótt King sé hagfræðingur sagði hann lykilinn ekki vera tölur. „Þegar við tölum saman, tölum við í sögum og söguþráðum,“ sagði King. „Þegar hagfræðingar fá nýjar hugmyndir tala þeir um þær við samstarfsmenn sína yfir kaffibolla á formi sagna en ekki talna.“ Ástæðu mikilvægi sagna sagði King þá að „við getum endurskoðað þær; það er einmitt það sem góð stjórnvöld eiga að gera.“

Tækifæri í eyðileggingunni

Við upphaf COVID-19 faraldursins, þegar starfsfólk yfirfullra spítala hér í Bretlandi þar sem ég bý lagði sig í lífshættu, er það hjúkraði alvarlega veikum sjúklingum með ókunna og bráðsmitandi veirusýkingu, stigu Bretar út úr húsum sínum á hverju fimmtudagskvöldi og klöppuðu fyrir hetjum heilbrigðiskerfisins. Smitum fækkaði yfir sumarmánuðina og var siðurinn lagður af. Í síðustu viku, í skugga methrinu mannfalls, var hann endurvakinn.

Daginn áður hafði öðrum vafasömum áfanga verið náð. Í lok vinnudags, miðvikudaginn 6. janúar, höfðu stjórnendur stærstu fyrirtækja Bretlands þegar aflað sér meiri tekna en meðalstarfsmaðurinn mun afla allt þetta ár.

Mannfræðingurinn David Graeber er þekktur fyrir metsölubókina „Bullshit Jobs“ þar sem hann heldur því fram að meira en helmingur starfa í nútímasamfélagi séu með öllu tilgangslaus. Skömmu fyrir sviplegt andlát Graeber í september síðastliðnum flutti Breska ríkisútvarpið hugleiðingar hans um hvað við ættum helst að endurhugsa í kjölfar heimsfaraldursins. „Lokun samfélaga í sóttvarnaskyni hefur sýnt okkur að því fleiri sem njóta góðs af því sem einstaklingur vinnur við, því lægri eru laun hans,“ kvað Graeber.

Við keppumst nú við að koma veröldinni í sama horf og hún var fyrir kórónaveirufaraldurinn. En viljum við byggja framtíðina á hugmyndum gærdagsins?

Faraldurinn afhjúpar sem aldrei fyrr virði mismunandi hópa. Í ljós kemur að það eru ekki launahæstu hóparnir sem eru mest virði þegar á reynir. Við erum öll komin undir heilbrigðisstarfsfólki, starfsfólki í matvælaframleiðslu, kennurum, afgreiðslufólki verslana, strætisvagnabílstjórum, fólki í umönnunarstörfum og ræstingum – lykilstarfsmönnum sem Bretar klappa nú fyrir, en sumir segja að ættu heldur að fá launahækkun.

Kórónaveirufaraldurinn skilur eftir sig sviðna jörð. En í eyðileggingunni má líka finna tækifæri. Í ár fara fram hér á landi kosningar til Alþingis. Það krefst hugrekkis að „hugsa nýjar hugsanir“; það þarf dug til að „endurskoða sögurnar“ sem við byggjum samfélag okkar á. Vonandi ber íslensku stjórnmálafólki gæfa til að semja nýjar sögur í kosningabaráttunni sem skollin er á. Loforð um að endurreisa veröld sem var er jafnholt og klappið sem aðframkomnu heilbrigðisstarfsfólki og öðrum láglauna-lykilstarfsmönnum faraldursins í Bretlandi er umbunað með.