Færri en vilja flatmaga nú á framandi sólarströnd með skáldsögu í hendi eins og venja er á þessum árstíma. En þótt margir verji sumarfríinu nærri heimaslóðum vegna heimsfaraldursins ætti vírusinn ekki að þurfa að hafa af okkur sumarlesninguna.

En til hvers er skáldskapur? Við fyrstu sýn kunna sögur að virðast lítið annað en dægrastytting. Þær eru þó annað og meira en stundarflótti undan raunveruleikanum.„Lífið er tilgangslaust,“ söng hljómsveitin Hatari í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

Hvernig tekst okkur að fara fram úr rúminu á morgnana, klæða okkur í föt og stíga brosandi inn í daginn þegar við vitum að „tómið heimtir alla“?

Manneskjan býr yfir þeirri einstöku vitneskju að á endanum munum við öll deyja, allir sem við þekkjum og elskum munu deyja og veröldin líða undir lok. Augljóst fánýti mannlegrar tilveru leiðir þó ekki til þess að slokkni á lífsþorstanum. Ástæða þess að okkur tekst að leiða hjá okkur niðurdrepandi sannleikann er sögur.

Í huganum semjum við sögur um eigin tilvist. Við röðum hendingum lífs okkar saman í snyrtilega atburðarás, vegferð með skýran tilgang: Að komast yfir það sem okkur vantar eða langar í. Okkur tekst að setja annan fótinn fram fyrir hinn því við höfum verk að vinna, hindranir til að sigrast á, sögu sem þarf að leiða til lykta.En það er ekki aðeins vegferðin sem við færum í sögubúning.

„Ég er dálítið misskilin söngkona,“ sagði annar Evróvisjón-fari nýverið. „Fólk vill alltaf setja í mig krullur, klæða mig í prinsessukjól og láta mig syngja Is it True,“ sagði Jóhanna Guðrún Jónsdóttir á tónleikunum Tónaflóði áður en hún flutti lag rokkhljómsveitarinnar Jet Black Joe.Í metsölubókinni Maðurinn sem hélt að konan hans væri hattur lýsir taugafræðingurinn Oliver Sacks lífi sjúklinga sem glíma við sjaldgæf frávik í heilavirkni.

Þar segir frá William Thompson, manni með minnisleysi sem veldur því að hann man ekkert lengur en í örfáar sekúndur, þar með talið hver hann er. En þrátt fyrir það lifir hann ekki í óttablandinni ringulreið eins og búast mætti við. Thompson er gæddur þeim hæfileika að skálda stöðugt upp æviatriði sem hann leggur sjálfur fulla trú á. „Slíkur sjúklingur býr sjálfan sig til hvert einasta andartak,“ segir Sacks.

Er Jóhanna Guðrún prinsessa eða rokkari? Sacks heldur því fram að við séum ekki svo ólík minnislausa manninum. Sjálfið er ekki annað en frásögn sem við smíðum í huganum. „Þessi saga er við.“Sú manneskja sem við teljum okkur vera kann að vera jafnmikill skáldskapur og sú manneskja sem öðrum finnst við vera.

Byrjun, miðja, endir

Sögur eru haldreipi okkar í lífsins ólgusjó. Tilgangurinn. Sjálfið. Við röðum glundroða tilverunnar í frásagnir í von um að skilja hið merkingarlausa.Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, varaði við því á dögunum að láta glepjast af sagnaforminu í baráttunni við kórónaveiruna.

„Eitt af því fáa sem við vitum fyrir víst um Covid er þetta: Sú von sem við bárum í brjósti í upphafi um að krísan kæmi til með að markast af skýrri byrjun, miðju og endalokum átti ekki við rök að styðjast.“ Hann sagði að þrátt fyrir bólusetningar og loforð um sögulok væri raunveruleikinn annar.

„Ég skil vel hvers vegna allir vilja að sóttvörnum sé aflétt en … það þarf ekki annað en að líta á tölfræðina og við blasir að þetta er ekki búið.“Illa gengur að raða samtímanum í snyrtilega atburðarás. En þótt framvinda farsóttarinnar lúti ekki lögum frásagnartækninnar geta sögur samt orðið til bjargræðis.

Sögur gera okkur kleift að ferðast á tímum sem lítið er um ferðalög – til annarra landa, annarra heima, annarra tíma. Sumarreisuna má finna í næstu bókabúð.