Allir vita að ekki þarf nema eina logandi eldspýtu til að kveikja mikið bál í þurri sinu. Að sama skapi dettur engum í hug að sama eldspýta gæti komið af stað eldi ef henni er kastað út í blautt gras. Raunar þarf grasið ekki að vera mjög blautt, svo lengi sem það er ekki skraufþurrt, þá munu meira að segja margar logandi eldspýtur ekki megna að koma af stað stórbáli.

Í lok febrúar og byrjun mars fór að bera á því að fárveikt fólk, einkum gamalt fólk, fór að veikjast á Norður-Ítalíu. Fólkið hafði líklega flest talið sig vera að fást við hefðbundið vetrarslen, kverkaskít, hósta og hausverk. Á nokkrum dögum fylltust sjúkrahúsin. Myndirnar voru sorglegar og dramatískar. Þolmörkin brustu og sóttvörnum varð ekki komið við meðal starfsmanna og margir þeirra smituðust í atganginum. Sama gerðist víða um heim. Nýja kórónaveiran blossaði fyrst upp í umhverfi þar sem sóttvarnir voru býsna aftarlega í forgangsröð flestra. Samfélögin voru eins og brakandi þurr sina sem einn lítill neisti gat breytt í logandi haf.

En viðbrögðin voru hörð og hröð. Útgöngubönn og ferðatakmarkanir voru settar á til þess að gefa sjúkrahúsum tækifæri til að sinna slökkvistörfum, og saman lögðu flest samfélög á sig margvíslegar þungbærar kvaðir til þess að lágmarka hættuna á því að aðrir neistar og smáeldar dreifðust óheft um akrana. Sagan mun sýna að þessar aðgerðir höfðu mikið að segja þegar óvissan var algjör. Það tókst að kaupa verðmætan tíma til að glöggva sig á viðfangsefninu, forgangsraða betur aðgerðum, prófa og meta meðferðarúrræði og uppfræða almenning um skynsamleg viðbrögð við nýjum vágesti. Enginn vafi er á því að viðbrögðin á Íslandi í fyrstu bylgjunni voru hröð, yfirveguð og skynsamleg. Reyndar svo mjög að lengi verður í minnum haft og líklega mun víðar en hérlendis.

Fyrirmyndarviðbrögð

Svo virðist sem flest það sem sagt var hér á landi í blábyrjun hafi elst ótrúlega vel. Sjúkdómurinn er miklu hættulegri en hefðbundnar flensur, einkum fyrir eldra fólk og viðkvæma hópa. Sem betur fer virðist ólíklegt að yngra fólk verði fyrir mjög alvarlegum afleiðingum. Sjúkdómurinn virðist þar að auki vera býsna smitandi, en þó ekki nálægt því eins og þeir sem berast með ofursmitandi loftbornum veirum, eins og þeirri sem veldur mislingum. Enn er of snemmt að segja til um langtímaafleiðingar, en mikilvægt að hafa hugfast að alvarlegar veirusýkingar geta haft langvinn eftirköst, eins og bent hefur verið á. Ekki er vitað hvort þessi veira sé að þessu leyti sérstaklega skæð. Að öllu þessu samanteknu er ljóst að líklega er rétt að kosta umtalsverðu til í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu veirunnar. En lífið og tilveran ættu samt ekki að þurfa að hverfast algjörlega um kófkvíða og sóttvarnir til frambúðar.

Allar þær upplýsingar, sem smám saman eru að skýrast ættu að gefa samfélögum heimsins sjálfstraust til þess að takast á við veiruvána af yfirvegun og því meðalhófi sem að mestu leyti hefur einkennt viðbrögðin hér á landi. Ef við höldum áfram að hugsa um eldnæmi grasbletts, þá þarf að finna mátulegt rakastig til þess að koma í veg fyrir að litlir neistar kveiki stórbál, en gæta þess þó að drekkja ekki gróðrinum undir óhóflegu fargi vatns sem dælt er yfir akra í eldvarnaskyni. Besta eldvörnin á akrinum felst því líklegast í því að sem stærstur hluti sé mátulega votur, og hvergi sé algjör þurrkur eða djúpir pollar. Það er hins vegar ekki líklegt til árangurs að leggja allt sitt traust á að aldrei berist neisti eða glóð að utan. Slíkur slagur tapast að lokum.

Það er því óendanlega mikilvægt að standa áfram vörð um þá samstöðu og skilning sem ríkt hefur á Íslandi um yfirvegaðar, rökréttar og öfgalausar aðgerðir. Það væri mikil þjóðargæfa ef okkur tækist að halda uppteknum hætti og láta ekki ofsahræðslu eða skeytingarleysi taka völdin í umræðunni heldur leggja yfirvegað mat á heildarhagsmuni samfélagsins.

Meðal annars í því skyni að finna leiðir til að lifa með þessari nýju áhættu hefur verið rætt um að taka upp litakóðakerfi, eins og við þekkjum um veðrið. Slíkt kerfi getur gefið samfélaginu merki um hvort, hvar og hvenær huga þurfi meira eða minna að þeim sóttvörnum sem þarf til að draga úr dreifingu veirunnar. Í raun væri það eins og áminning um hvar, hvenær og hversu mikið þarf að vökva akurinn og tryggja þannig sem best að hann verði ekki svo skraufþurr að neisti kveiki stórbál—en sjaldan svo blautur að ekki sé hægt að spila fótbolta eða velta sér um og leyfa huganum að finna í skýjunum þær sögur og myndir sem þau geyma.