Við erum hvött til dáða. Hvött til að nýta okkur ís­lenska þjónustu, kaupa ís­lenskan varning og ferðast um landið. Þegar á móti blæs er heldur ekkert að því að hvetja fólk til dáða – jafn­vel með ör­litlu „dash-i“ af ís­lenskri upp­hafningu. Með því teljum við okkur trú um að við getum fært fjöll og komið okkur út úr nánast hvaða ó­göngum sem er.

Mesti drif­krafturinn felst þó í því að okkur er enn í fersku minni hversu vel okkur gekk að komast upp úr síðustu, djúpu kreppu. Upp­gangur ferða­þjónustunnar var raunar svo hraður að við þurftum á utan­að­komandi hjálp að halda. Fjöldinn allur af er­lendu verka­fólki reif sig upp með rótum í heima­löndum sínum til þess að hlaupa undir bagga með okkur í upp­sveiflunni og margir í­lengdust hér á landi.

Því miður eru ekki allir vinnu­veit­endur er­lends verka­fólks á Ís­landi jafn vandir að virðingu sinni. Sögur af því hvernig vest­ræn sam­fé­lög nýta sér ör­birgð fá­tæks verka­fólks eru ekki bara Net­flix upp­spuni, heldur veru­leiki fólks af holdi og blóði út um allan heim – líka á Ís­landi. Við vitum öll að hingað hefur verið fluttur fjöldinn allur af fólki úr ör­birgð, eða svo­kallað „ó­dýrt vinnu­afl“ til starfa á bágum kjörum, og oft við hræði­legar að­stæður á ís­lenskum vinnu­markaði. Þó svo dauða­gildrur á borð við Bræðra­borgar­stíg 1 séu á al­mennu vit­orði, draga yfir­völd lappirnar í því að tryggja öryggi í­búanna.

Yfir­standandi sam­dráttur hefur jafn­vel komið enn verr niður á verka­fólki af er­lendum upp­runa en ís­lenskum. Við hrun ferða­þjónustunnar jókst at­vinnu­leysi í þessum hópi strax á haust­mánuðum. Stóri skellurinn reið svo yfir með CO­VID-far­aldrinum þó dregið hafi saman með ís­lenskum og er­lendum ríkis­borgurum á at­vinnu­leysis­skrá á tíma­bili í apríl.

Nú hallar aftur á er­lenda ríkis­borgara og nam hlut­fall þeirra af öllum at­vinnu­leit­endum hátt í 40%, eða 6.320 manns af 16.134, í lok maí. Sá fjöldi sam­svarar því að 17,6% er­lendra ríkis­borgara á Ís­landi séu al­farið án at­vinnu, og hækkar hlut­fallið í 25% ef er­lendir ríkis­borgarar á hluta­bótum eru teknir með í reikninginn. Líkur benda til að starfs­mönnum á hluta­bóta­leiðinni fari fækkandi á næstu vikum. Á hinn bóginn fjölgi á al­mennri at­vinnu­leysis­skrá með haustinu.

Ekki að­eins er þessum hópi hættara en verka­fólki af ís­lenskum upp­runa við að missa vinnuna þegar á móti blæs. Meiri líkur eru á því að hann eigi erfiðara með að fá aftur vinnu, hafni í verr launuðum störfum, þurfi að þola launa­þjófnað og aðra mis­beitingu af hálfu vinnu­veit­enda sinna eins og dæmin sanna. Er­lendir Eflingar­fé­lagar eru lík­legri heldur en ís­lenskir til að búa í leigu­hús­næði og hafa meiri á­hyggjur af því að standa skil á hús­næðis­kostnaði, sam­kvæmt ný­legri Maskínu­könnun fyrir Eflingu. Allt of margir þekkja ekki réttindi sín á vinnu­markaði og hafa tak­markaðan að­gang að upp­lýsingum um gagn­leg úr­ræði. Al­gengt er að fólk vinni myrkranna á milli í mörgum störfum, til að sjá sjálfum sér og fjöl­skyldum sínum far­borða í nýja landinu. Ofan á gríðar­legt vinnu­á­lag bætist svo á­lagið við að læra tungu­málið, að­lagast nýrri menningu og siðum.

Við megum ekki flýta okkur svo hratt við upp­bygginguna fram­undan að við gleymum er­lendum bjarg­vættum okkar í ferða­þjónustunni og öðrum mikil­vægum undir­stöðu­greinum. Þeir eru sannar­lega ó­rjúfan­legur hluti af sam­fé­laginu, því sem hefur á­unnist og verk­efninu fram­undan. Nú líður varla sá dagurinn að Eflingu berist ekki erindi frá fé­lags­mönnum af er­lendum upp­runa, um hvernig þeir geti orðið sér úti um brýnustu nauð­synja­vörur vegna tafa á launum, seinkunar Vinnu­mála­stofnunar á greiðslu bóta og langs ferils gjald­þrota­skipta fyrir­tækja. Brýnt er að að­stæður þessa hóps séu bættar, meðal annars með því að tryggja réttindi þeirra á vinnu­markaði, hækka húsa­leigu­bætur og bæta að­gengi að upp­lýsingum um réttindi og úr­ræði.

Við búum öll yfir vit­neskjunni um að­stæður er­lends verka­fólks á Ís­landi og berum því öll á­byrgð á því að vel sé búið að þessum sam­borgurum okkar, hvaðan sem þeir koma. Okkur ber skylda til að veita stjórn­völdum að­hald til að sinna þeirri skyldu sinni fyrir okkar hönd að tryggja réttindi og að­stæður allra – ekki bara sumra.