Íslendingar eiga það til að að gleyma fólki, ekki síst stjórnsýslan, embættismannakerfið og félagsþjónustan, sem hefur á að skipa ágætum starfsmönnum, oftast nær, en á köflum er eins og mannúðin eigi ekki heima í reiknilíkani þessara opinberu apparata, þvert á raunverulegt hlutverk þeirra.

Nýjasta og átakanlegasta sagan sem afhjúpar þessa gleymsku fjallar um hlutskipti tæplega sextugrar konu með MS-sjúkdóminn, en hún fær ekki lengur inni á hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi sem hefur verið athvarf hennar um tveggja ára skeið. Hún heitir Margrét Sigríður Guðmundsdóttir og hefur glímt við heilsuleysi um árabil.

Núna eru aðstæður hennar í samfélaginu þær að ekki er lengur hægt að koma til móts við þarfir hennar á heimilinu. Hún segist fyrir vikið ekki vita hvar hún eigi að búa. Hún hefur með öðrum orðum fengið tvöfaldan dóm, sjúkdóm sinn og höfnun hins opinbera.

Og það er ekki laust við það að maður skammist sín fyrir framkomu af þessu tagi, fyllist jafnvel reiði í bland við leiða og trega.

Fyrir tuttugu árum sat sá sem hér skrifar dálkinn í hópi foreldra langveikra og fatlaðra barna sem leituðu ásjár félagsmálaráðherra vegna alvarlegs skorts á framtíðarhúsnæði fyrir ungmenni sem glíma við stærstu áskorun lífsins, ævilangan heilsubrest.

Ráðherrann sagði úr vöndu að ráða, en benti að lokum á ódýrt húsnæði úti í Hrísey. Og sjaldan hefur maður setið í hópi jafn margra foreldra sem verður orða vant og fallast hendur.

Eitthvað hefur kerfinu miðað áleiðis á þessum fimmtungi aldar sem liðinn er frá téðum fundi í félagsmálaráðuneytinu. Og þó. Þetta fámenna samfélag, sem er á meðal þeirra efnuðustu á kringlu jarðar, lætur sér enn þá koma það á óvart að sinna þurfi þess veikasta fólki.

Og það er áfall. Það er ekkert minna en áfall fyrir samfélag að sjá sig með þeim hætti í spegli daganna. Enda er framkoma af þessu tagi við veikasta fólkið okkur til slíkrar smánar að aldrei verður við unað.

Áminningin er líka skýr. Við kunnum ekki á forgangsröðina í samfélaginu. Ekkert er þar mikilvægara en að koma vel fram við börn og hlúa að þroska þeirra og aðstæðum, svo og að stuðla að bestum hag þeirra sem glíma við veikindi og standa höllum fæti í samfélaginu.

Um þetta eru Íslendingar sammála. En gleyma sér enn.