Það ríkir um­­önnunar­kreppa á Ís­landi. Harla efnuðu sam­­fé­lagi hefur ekki enn tekist að skjóta skjóls­húsi yfir margt af veikasta fólki þess, en fyrir vikið er því komið fyrir á hjúkrunar­heimilum, langt fyrir aldur fram.

Þetta er á­­fellis­­dómur yfir ráðandi öflum og er al­­ger­­lega á skjön við þær tylli­daga­ræður stjórn­­mála­­foringja sem draga einatt upp glans­­myndina af fram­­sæknu, rétt­látu og þróuðu þjóð­­fé­lagi sem skari fram úr í saman­burði við önnur lönd.

Mið­aldra fólki sem glímir við lang­vinna og erfiða sjúk­­dóma er enginn greiði gerður með þessu inni­halds­­lausa rausi þegar nötur­­legur veru­­leikinn blasir við; því er ekki ætlaður staður við hæfi í ís­­lensku vel­­ferðar­­kerfi – og má raunar þakka fyrir að fá inni á elli­heimilum þar sem þjónusta er miðuð við elstu hópana í landinu.

Frétta­blaðið hefur á síðustu dögum rætt við fjölda fólks í þessari stöðu, svo sem Margréti Sig­ríði Guð­­munds­dóttur, 59 ára, sem eftir margra mánaða heimilis­­leysi fékk loksins inni á hjúkrunar­heimili, sem hún þakkaði fyrir í sjálfu sér, en hún óskar aftur á móti engum ungum ein­stak­lingi sama hlut­­skiptis.

Hún glímir við tauga­­sjúk­­dóminn MS og þarf að reiða sig á um­­önnun annarra. Skyldi það nú ekki vera nóg?

29. júlí 2021

Vísinda­­menn hafa fyrir margt löngu reiknað út fram­­leiðslu­­getu jarðarinnar á súr­efni, gróðri og dýrum, því kvika í heimi hér. Lengi fram eftir síðustu öld höfðu þeir ekki á­hyggjur af á­­gangi mannsins á þessa lykil­þætti í líf­­ríki hnattarins. Það breyttist um 1980. Þá tók maðurinn jafn mikið til sín og jörðin gaf.

Núna, röskum 40 árum seinna, tekur mann­kynið miklu meira til sín en jörðin ræður við. Í ár kláraði maðurinn árs­­fram­­leiðslu jarðarinnar 29. júlí, en eftir það byrjaði hann að ganga á hana.

Ef fram heldur sem horfir mun þessi dag­­setning færast framar, um tvo til þrjá daga á ári. Á­­stæðan er einkum of­­fram­­leiðsla og sóun. Í sumum vöru­­flokkum er helmingnum hent. Og í sumum löndum er neyslan svo mikil, svo sem Sviss, að ef öll lönd jarðar neyttu jafn mikils, þyrfti mann­kynið á þremur jörðum að halda.

En það er ekkert lát á sóuninni. Hún er knúin á­­fram af svo­kölluðum þróuðum ríkjum sem vilja sitt, heimta sitt.