Ég man enn þá eftir mínum fyrstu kynnum af hækkandi verðlagi. Í hverfissjoppunni í Þingholtunum var rukkað fyrir nammið í stykkjatali þegar ég var ungur. Þetta var jú áður en vigtirnar ruddu sér rúms og sugu allan djassinn út úr því þegar sjoppukarlar og kerlingar slumpuðu á hvenær þú værir kominn í hundraðkallinn.
Uppáhaldsnammið mitt á þessum tíma var saltpillan sem kostaði eina krónu. Fyrir hundrað krónur var þannig hægt að fá stútfullan poka (þann úr græna plastinu) af þessu svarta gulli. Hvílíkur díll! Ef ég fann glerflösku á víðavangi var hægt að skila henni fyrir fimmtán krónur eða jafnmargar pillur.
Þar sem að saltpillan var í rauninni eina varan sem ég keypti fyrir minn eigin pening á þessum tíma var það mikið áfall þegar hún hækkaði upp í tvær krónur í sjoppunni minni. Hundrað prósent hækkun – það var jú ekki hægt að fara neinn milliveg með þessa minnstu einingu gjaldmiðilsins.
Nú fengust ekki nema fimmtíu pillur fyrir einn grænan seðil. Ég þurfti að safna tvisvar sinnum fleiri glerflöskum fyrir sama magn af pillum. Þetta var glerbólga. Ég var gríðarlega hnugginn en það var lítið hægt að gera. Það voru jú engin hagsmunasamtök sem börðust fyrir réttindum nammigrísa.
Í dag eru útgjaldaliðirnir orðnir fleiri og það er ómögulegt að halda utan um verðsveiflurnar á þeim öllum. Ég veit sjaldan hvenær það er verið að svindla á mér því ég veit ekkert hvað er sanngjarnt verð lengur. Mér fannst þægilegra að geta hugsað um hlutina í glerflöskum.