Er það satt? Er það búið? Syngur þjóðin í dag. Ýmist til að sýta gengi strákanna okkar í handbolta og að hafa ekki fengið að halda gleðinni áfram alla leið í úrslitin. Eða í eftirvæntingu eftir fréttum dagsins í dag um afléttingar sóttvarnaaðgerða. Það skilur hvort eð er enginn reglurnar lengur. Gildir tíu manna reglan annars bara ef öll eru stödd í lokaðri kompu, að minnsta kosti tvö eru eldri en sextugt og einhver trúir ekki á grímur?

Ef hlustað er á ráðherra Sjálfstæðisflokksins er samkomutakmörkunum nánast lokið. Fái Bjarni að ráða verður gott partí í Ásmundarsal í kvöld. Ráðherrar hinna flokkanna sem hafa stýrt heilbrigðisráðuneytinu undanfarin tvö ár virðast nokkuð hæglátari. Þetta þurfi nú að taka sinn tíma. Það þurfi að hugsa um Landspítalann. Það þurfi að hugsa um kerfið. Enda sjáum við að fjöldi smitaðra breytist ekki. Það eru enn um 1.500 manns á dag. Fyrir utan þau sem ekki greinast.

Undanfarin tvö ár hefur það verið fasti í vinnunni að standa upp og horfa yfir sýnatökuröðina við Suðurlandsbraut. Sóttkvíarbreytingarnar á þriðjudag eru greinilega farnar að hafa áhrif. Umferðin um Ármúlann hefur dregist saman. Ég spái því að til samræmis muni þeim fækka sem greinast á degi hverjum. En fjöldi smitaðra helst í stað.

Þetta er nefnilega ekki búið. Hvorki Covid né stuðið í handboltanum. Þetta er bara að breytast. Fær að þroskast og þróast. Ef hægt er að miða við ungu strákana sem fengu að spreyta sig á meðan reynsluboltarnir voru lokaðir inni eru gullár fram undan. Vonandi verður Covid-þróunin jafnbjört. Þess mun engin sakna, nema kannski kettirnir mínir sem fá minni þjónustu þegar ég er minna heima.