Aldrei hafa verið fleiri íbúðir í byggingu í borginni. Til viðbótar við þær fjölmörgu sem eru að koma á sölumarkað bætast við á þriðja þúsund íbúða sem reistar eru í samvinnu við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög, auk hagkvæmra íbúða fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Þessi verkefni munu hafa afgerandi, jákvæð áhrif á húsnæðis- og leigumarkaðinn og koma mjög til móts við marga.

Komandi ár verður lykilár í jákvæðri umbreytingu borgarinnar. Við sjáum Hafnartorg og Austurhöfn taka á sig mynd. Fjölda uppbyggingarreita við Hverfisgötu mun ljúka og endurnýjun Hlemmtorgs er næst á dagskrá. Stærstu fjárfestingarverkefni borgarinnar eru skóli, menningarmiðstöð og sundlaug í Úlfarsárdal, nýjar leikskóladeildir og íþróttamannvirki fyrir ÍR í Breiðholti. Uppsteypa á nýju hverfi á Hlíðarenda verður líka langt komin og nýtt hverfi í Vogbyggð komið af stað. Framtíðarsýn og rammaskipulag fyrir Borgarlínu frá Hlemmi austur á Ártúnshöfða og suður á Kársnes mun líta dagsins ljós, ásamt því að skipulag vegna Miklubrautar í stokk fer af stað.

Fyrstu stórmyndirnar verða líklega festar á filmu í kvikmyndaverinu í Gufunesi, frumkvöðlasetrið Gróska rís í Vatnsmýrinni, Hús íslenskunnar á Melunum og langþráður meðferðarkjarni Landspítalans við Hringbraut. Skipulagssamkeppni og uppbygging á nýrri samgöngumiðstöð á svæði BSÍ mun einnig marka tímamót. Þannig mætti áfram telja. Borgir þróast í samvinnu borgarbúa, borgaryfirvalda og öflugs og fjölbreytts atvinnulífs. Við erum sannarlega að þróa kraftmikla, skemmtilega og fjölbreytta lífsgæðaborg í Reykjavík, borg fyrir fólk. Takk fyrir samstarfið 2018 og gleðilegt ár 2019!