Nú í upphafi árs eru margir sem strengja áramótaheit. Mörg heitin snúa að bættri heilsu enda er góð heilsa gulli betri og margt sem hægt er að hafa áhrif á. Góður svefn er undirstaða heilsu en kannanir benda til að fjórðungur fullorðinna og um 40% ungmenna sofi of lítið en fullorðnir þurfa a.m.k. sjö klst. svefn, ungmenni og börn meira. Til þess að sofa vel er reglusemi mikilvæg, að sofna og vakna á svipuðum tíma alla daga, forðast koffíndrykki a.m.k. átta klst. fyrir svefn og skjánotkun a.m.k. tveimur klst. fyrir háttatíma. Það er gott að hafa myrkur og svalt í svefnherberginu, finna uppbyggilegar leiðir til að takast á við áhyggjur og gefa sér tíma til að komast í ró.
Hreyfing er nær allra meina bót. Mælt er með að fullorðnir hreyfi sig í hálfa klukkustund en börn í minnst klukkustund daglega. Þá verður mikilvægi hollrar næringar æ ljósara og þekkt samband óhollustu við fjölda sjúkdóma. Við vitum vel hvað er hollt en ég vil ítreka mikilvægi þess að taka D-vítamín daglega og að við hugum að inntöku joðs, sérstaklega barnshafandi konur. Rannsóknir hafa sýnt að þetta hvoru tveggja þarf að bæta. Þá er mikilvægt að rækta geðið; vera virkur þátttakandi í lífinu, viðhafa góð samskipti innan og utan fjölskyldu, rækta tengsl og leitast við að láta gott af sér leiða. Það vita allir að við eigum ekki að reykja og að forðast áfengi, þar gildir því minna, þeim mun betra. Loftslagsbreytingar með öllu því sem fylgir eru mikil ógn við heilsu og heill jarðarbúa og því er það að vera ábyrgur neytandi einn af áhrifaþáttum heilbrigðis.
Leiðbeiningar um heilbrigða lífshætti er að finna bæði á landlaeknir.is og á heilsuvera.is. Kæru landsmenn, ég hvet ykkur til að kynna ykkur hvernig hver og einn getur bætt heilsu sína og líðan. Stuðlum að eigin heilsueflingu, okkur sjálfum og samfélaginu til góðs.