Gleði­legan þjóð­há­tíðar­dag, kæru lands­menn!

Megi dagurinn verða okkur öllum til gæfu og gleði, sama hvernig viðrar. Við tíma­mót af þessu tagi er gott að líta um öxl, leita í reynslu­banka liðinnar tíðar. Svo er líka gaman að rifja upp merka við­burði. Þannig var talið að fyrir réttum þúsund árum hefði verið gefið út páfa­bréf um völd erki­biskupsins í Ham­borg „yfir öllum norð­lægum ríkjum, sem eru Dan­mörk, Sví­þjóð, Noregur, Ís­land og allar eyjar sem að þessum ríkjum liggja“. Síðar fékkst sannað að þetta var ein­tómt fals kirkjunnar manna.

Hitt vitum við fyrir víst að árið 1022 gerðu ís­lenskir höfðingjar samning við Ólaf helga Noregs­konung um rétt Ís­lendinga þar ytra. Þann sátt­mála má kalla fyrsta milli­ríkja­samning Ís­lendinga og vísi að því að sér­ís­lenskt þjóð­erni var í mótun þótt tengsl við Noreg, kaþólska kirkju og konungs­vald væru á­fram afar sterk. Þannig héldust í hendur full­veldi og er­lend ítök og sam­vinna og er það gömul saga og ný.

Fyrr í ár var öllum hömlum vegna heims­far­aldursins af­létt. Í þeim hremmingum stóð þjóðin saman upp til hópa. Al­menningur á­kvað eftir sínu hyggju­viti að það væri skyn­sam­legt og rétt, í eigin þágu og heildarinnar. Við sýndum okkar styrk þegar á reyndi. Það ber að lofa. Far­sóttinni er ekki lokið. Enn veikist fólk og við­kvæmum hópum er hollt að hafa varann á.

En nú getum við komið saman, fagnað frelsi og sjálf­stæði. Það er ekki sjálf­gefið í þessum heimi eins og inn­rás Rúss­lands­hers í Úkraínu sýnir svo skelfi­lega nú um stundir. Metum þau verð­mæti sem við njótum hér á landi. Undan­farið hef ég farið víða, fræðst um sóknar­færi og kynnst kröftugu mann­lífi. Ég þakka gest­gjöfum um land allt vel­vild þeirra og hlý­hug.

Í dag verður líf og fjör víða um land og á morgun bjóðum við Eliza til opins húss á Bessa­stöðum, milli klukkan 13 og 16. Verið öll vel­komin og aftur til hamingju með daginn!