Gleðilegan þjóðhátíðardag, kæru landsmenn!
Megi dagurinn verða okkur öllum til gæfu og gleði, sama hvernig viðrar. Við tímamót af þessu tagi er gott að líta um öxl, leita í reynslubanka liðinnar tíðar. Svo er líka gaman að rifja upp merka viðburði. Þannig var talið að fyrir réttum þúsund árum hefði verið gefið út páfabréf um völd erkibiskupsins í Hamborg „yfir öllum norðlægum ríkjum, sem eru Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Ísland og allar eyjar sem að þessum ríkjum liggja“. Síðar fékkst sannað að þetta var eintómt fals kirkjunnar manna.
Hitt vitum við fyrir víst að árið 1022 gerðu íslenskir höfðingjar samning við Ólaf helga Noregskonung um rétt Íslendinga þar ytra. Þann sáttmála má kalla fyrsta milliríkjasamning Íslendinga og vísi að því að séríslenskt þjóðerni var í mótun þótt tengsl við Noreg, kaþólska kirkju og konungsvald væru áfram afar sterk. Þannig héldust í hendur fullveldi og erlend ítök og samvinna og er það gömul saga og ný.
Fyrr í ár var öllum hömlum vegna heimsfaraldursins aflétt. Í þeim hremmingum stóð þjóðin saman upp til hópa. Almenningur ákvað eftir sínu hyggjuviti að það væri skynsamlegt og rétt, í eigin þágu og heildarinnar. Við sýndum okkar styrk þegar á reyndi. Það ber að lofa. Farsóttinni er ekki lokið. Enn veikist fólk og viðkvæmum hópum er hollt að hafa varann á.
En nú getum við komið saman, fagnað frelsi og sjálfstæði. Það er ekki sjálfgefið í þessum heimi eins og innrás Rússlandshers í Úkraínu sýnir svo skelfilega nú um stundir. Metum þau verðmæti sem við njótum hér á landi. Undanfarið hef ég farið víða, fræðst um sóknarfæri og kynnst kröftugu mannlífi. Ég þakka gestgjöfum um land allt velvild þeirra og hlýhug.
Í dag verður líf og fjör víða um land og á morgun bjóðum við Eliza til opins húss á Bessastöðum, milli klukkan 13 og 16. Verið öll velkomin og aftur til hamingju með daginn!