Hinsegin dagar eru gengnir í garð. Mörg ár eru síðan Hinsegin dagar og auðvitað sérstaklega gleðigangan sjálf, náði þeim árangri að vera ekki síður sigurganga en baráttuganga, oftast með tugum þúsunda þátttakenda sem mæta til að fagna fjölbreytileika mannlífsins.

Þessi árlega hátíð hefur átt sinn þátt í því að samkynhneigðir teljast tæpast lengur til undirokaðs minnihlutahóps á Íslandi. Samkynhneigðir komast hér til æðstu metorða, mennta sig, kaupa hús, eignast börn. Auðvitað verður fólk fyrir aðkasti, en í svo miklu minni mæli en margir aðrir minnihlutahópar sem hér búa. Þess vegna eru Hinsegin dagar svo frábærir með áherslu sinni á fjölbreytileikann því fjölbreytnin felst líka í þjóðerninu, húðlitnum, stjórnmálaskoðunum, trú og trúleysi.

Nú bæta Hinsegin dagar um betur og blása til ráðstefnu sem hefst í Grófinni í dag og lýkur á morgun. Fjöldi áhugaverðra erinda eru auglýst og mörg þeirra geta, þegar að er gáð, leitt hugann að aðstæðum annarra minnihlutahópa. Eitt erindanna fjallar um samkynhneigð á landsbyggðinni. Hér er efni sem orðið hefur of mikið útundan í byggðaumræðunni. Það er fyrir löngu orðið bannað að tala um hvort og hve illa getur farið um minnihlutahópa í dreifbýli, jafnvel þótt um þekkt alheimsvandamál sé að ræða.

Hinsegin hreyfingin getur kennt okkur svo margt sem við eigum enn ólært. Til dæmis um lífsbaráttu hinsegin fólks sem yfirgaf átthagana og flutti til Reykjavíkur, ýmist til að flýja ofsóknir eða til að sameinast samfélagi fólks sem útilokað var að orðið gæti til í dreifbýlinu. Sambærileg dæmi eru til um flóttafólk sem flúði til Íslands undan stríði og holað var niður úti á landi, jafnvel á mjög afskekktum stöðum. Fólki frá Úkraínu, Sýrlandi, Afganistan og Palestínu er tvístrað vítt og breitt um landið og jafnvel á staði sem eru svo afskekktir og fámennir að útilokað er að það geti átt myndarlegt samfélag saman, talað móðurmál sitt hvert við annað, iðkað trú sína saman og haldið menningu sína í heiðri hvert með öðru.

Þótt samkynhneigðum hafi blessunarlega aldrei verið smalað með skipulegum hætti í litlum flokkum út á land, líkt og enn er tíðkað með aðra minnihlutahópa, geta þau kennt okkur sitthvað um reynslu sína af því að þurfa lífsnauðsynlega á fjölbreyttu samfélagi að halda í sínu nærumhverfi.