Stuðningsmenn tyrkneska landsliðsins eiga mikla skömm skilda fyrir að baula á meðan Lofsöngurinn var spilaður fyrir leikinn í gærkvöldi. Voru dæmi þess að Tyrkir sýndu okkar mönnum puttann á meðan þjóðsöngur Íslands var leikinn. Óljóst er hvort Erdogan sjálfur hefur tekið þátt í því.

Hugsanlega á uppátæki erlenda ferðamannsins með klósettburstann í Leifsstöð í sumar einhvern þátt í framferði Tyrkja.

Við Íslendingar munum ekki gjalda í sömu mynt heldur halda áfram að láta duga að fara með háðsglósur um Halim Al. Og kannski spyrja hvað varð um alla Armenana.

Dásamlegur spuni

Spuni er mjög vanmetið fyrirbæri. Með spuna er hægt að breyta einhverju skelfilegu yfir í eitthvað sem mögulega telst jákvætt.

Spuni opinberra aðila á það til að vera bráðfyndinn, sérstaklega þegar hann á við eitthvað batterí sem allir þekkja.

Í vikunni fékk Lánasjóður íslenskra námsmanna í hendurnar viðhorfskönnun sem afhjúpaði falleinkunn í þjónustu stofnunarinnar.

Í stað þess að segja það bara þá var niðurstöðunum dreift með skilaboðunum um að þær bentu til „ýmissa sóknarfæra“.