Árið 2014 fór sextug bandarísk kona til læknis vegna verkja í úlnlið. Læknirinn skrifaði upp á verkjalyfið OxyContin. Ekki leið á löngu uns konan var orðin háð lyfinu. Þegar læknirinn vildi ekki skrifa upp á meira keypti hún lyfið á svörtum markaði. Þegar hún hafði ekki efni á OxyContin tók hún að kaupa ódýrari lyf af dópsölum götunnar.

Konan sem um ræðir heitir Nan Goldin og er þekktur ljósmyndari. Í þrjú ár var Goldin í heljargreipum neyslu. En árið 2017 fór Goldin í meðferð. Að meðferð lokinni tók hún að kynna sér sögu lyfsins sem umturnað hafði lífi hennar. Hún rakst á nafn: Sackler. Hún kannaðist við nafnið úr listaheiminum. Nafn Sackler-fjölskyldunnar prýddi sýningarsali og lista yfir styrktaraðila safna um heim allan. Goldin til hryllings var hin ölmusugóða og listelskandi fjölskylda, Sackler-fjölskyldan, stofnendur Purdue Pharma, fyrirtækisins sem framleiðir OxyContin, og er talið bera mesta ábyrgð á ópíóíðafaraldrinum sem nú geisar í Bandaríkjunum og breiðist um heiminn.

Hvers vegna vissi hún þetta ekki? Goldin varð öskuvond. Hún ákvað að taka til sinna ráða.

„Fjarstæðukennd tilhugsun“

Í vikunni fjallaði fréttaskýringaþátturinn Kveikur og fjölmiðillinn Stundin um viðskipti sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja í Namibíu. Fram kom að Samherji hefði undanfarinn áratug greitt háttsettum stjórnmála- og embættismönnum í Namibíu hundruð milljóna íslenskra króna til að komast yfir fiskkvóta undan ströndum landsins. Þá hafi lítill eða enginn virðisauki orðið eftir í Namibíu vegna hagnýtingar Samherja á kvótunum. Í kjölfar umfjöllunarinnar spurðu sig margir: Er ástæða til að ætla að viðskiptahættir fyrirtækisins séu eitthvað snyrtilegri á Íslandi en í Namibíu? Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, taldi engar líkur á ósæmilegum starfsháttum Samherja á Íslandi. „Ég held að það sé nú fjarstæðukennd tilhugsun,“ sagði hann í viðtali.

En er hugmyndin svo fjarstæðukennd? Þótt sjávarútvegurinn á Íslandi hafi átt fordæmalaust góðærisskeið síðastliðinn áratug keppist ríkisstjórnin við að lækka veiðigjöldin. Þorsteinn Már Baldvinsson í Samherja hagnaðist um 5,4 milljarða í fyrra – meira en öll fyrirhuguð veiðileyfagjöld næsta árs. Þótt níu af hverjum tíu Íslendingum finnist mikilvægt að kveðið sé á um eignarrétt náttúruauðlinda í stjórnarskrá Íslands breytist aldrei neitt. Hvers vegna viðgengst þetta?

Blóðpeningar þvegnir

Það sem af er ári hefur fjöldi listasafna afþakkað frekari styrki frá Sackler-fjölskyldunni; Metro­politan safnið í New York, Tate í London, Louvre í París. Er það í kjölfar mótmæla fyrrnefndrar Nan Goldin. Goldin sakaði Sackler-fjölskylduna um að nota illa fengið fé til að fela syndir sínar með góðgerðarstarfsemi. „Fjölskyldan hefur þvegið blóðpeningana sína í sölum safna og háskóla um heim allan.“

Mútur eru ekki eina leiðin til að nýta fjárhagslega yfirburði til að fá sitt fram. Samherji hefur veitt háa styrki til stjórnmálaflokka. Samherji hefur þar að auki getið sér gott orð á sviði góðgerðarmála. Fyrirtækið keppist við að styrkja ýmis samfélagsverkefni, íþrótta- og æskulýðsstarf. Fyrirtækið er þekkt fyrir að styðja myndarlega við Fiskidaginn mikla á Dalvík.

Brauðmolar af borði Samherja tryggja þeim þögn og þýlyndi. Þetta er alþekkt aðferð. Spyrjið bara Sackler-fjölskylduna. Með „gjafmildi“ treystir fyrirtækið eignarhald sitt á kvótanum, lágmarkar greiðslur í sameiginlega sjóði og hámarkar hagnað. Með fiskisúpu og flugeldum sannfærir Samherji almenning um að rugga ekki bátnum. Hver vill auka álögur á fyrirtækið sem er svo huggulegt að styrkja fótboltanámskeið barnanna?

Kveikur og Stundin upplýstu um arðrán Samherja á auðlindum annarrar þjóðar. En hefur Samherji ekki einmitt komist upp með arðrán á auðlindum íslenskrar þjóðar til áratuga?