Við erum líklega með eina dýrustu bjórkrús í Evrópu. Mér finnst ekki endilega að það eigi að vera þannig. Mér finnst að við ættum að geta verið með sambærileg verð og eru í löndum sem eru á svipuðum slóðum og Ísland.“ Svo mælti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á opnum Zoom-fundi Sjálfstæðismanna síðastliðið sumar. Á fundinum var hann inntur eftir því hvenær stæði til að gera eitthvað almennilegt varðandi skattaálögur á áfengi. Stutta svar fjármálaráðherra var: „Það er mín skoðun að við séum komin algjörlega út í ystu mörk á skattlagningu.“

Sami fjármálaráðherra leggur nú til að áfengisgjaldið verði hækkað enn eina ferðina um sín venjubundnu 2,5 prósent.

Það er gjarnan sagt um ríkisstjórnina að þrátt fyrir að flokkarnir sem standa að henni séu ólíkir myndi samstarf þeirra jafnvægi þar sem „öfgarnar“ á sitt hvorum pólnum styttist út. En áhrifin eru ekki síður að það versta í fari hvers og eins þeirra kæfir bestu kosti hinna.

Frjálslyndi Sjálfstæðismanna víkur fyrir forræðishyggju VG og kapítalisminn í Sjálfstæðisflokknum jarðar áhuga Vinstri grænna á félagslegu réttlæti, heilsu- og umhverfisvernd. Í miðjunni stendur Framsókn, samnefnari helstu bresta samstarfsflokkanna, með pálmann í höndunum og þarf hvergi að gefa eftir.

Fyrrnefnd skoðun Bjarna um álögur á áfengi, sem hlýtur að vera útbreidd í Sjálfstæðisflokknum, er brottrekstrarsök hjá Vinstri grænum sem líta á sig sem stranga uppalendur þjóðarinnar. Það eigi að tukta fólk til að hætta að reykja og pína það til að stilla sig um drykk með því að setja það á hausinn.

Allir vita að þetta óumbeðna uppeldi kemur harðast niður á þeim sem verst standa í þjóðfélaginu: fátækum, fólki með fíknivanda og alkóhólistum. Þar sem Vínbúðin er ekkert annað en sælkeraverslun með munaðarvörur, beina hinir veikustu viðskiptum sínum í auknum mæli til bensínstöðva þar sem rauðsprittið er selt. Það er allur árangurinn af uppeldinu.

Önnur réttlæting fyrir skattpíningunni er að afla þurfi fjár fyrir háum kostnaði samfélagsins af áfengis- og tóbaksneyslu.

Skoðum þá fjárlagafrumvarpið aftur. Þar kemur fram að fjárframlög til SÁÁ hækka ekkert þótt tekjur ríkisins af áfengissköttum hækki um marga milljarða, bæði á þessu ári og því næsta. Það verður að teljast ólíklegt að vinstri hönd ríkisstjórnarinnar nái að betla eitthvað af þessu fé úr þeirri hægri, enda líklegast að miðstykkið hirði gróðann og breyti í bundið slitlag. n