Það vakti athygli þegar fregnir bárust af því í seinustu viku að Gildi Lífeyrissjóður hygðist fjárfesta fyrir rúma þrjá milljarða króna í fiskeldisfyrirtækinu Icelandic Salmon (áður Arnarlax). Með fjárfestingunni virðist lífeyrissjóðurinn fara gegn eigin gildum um ábyrgar fjárfestingar sem taka mið af umhverfissjónarmiðum, sem eru tíunduð á heimasíðu sjóðsins og hefur verið vel kynnt.

Á sama tíma barst tilkynning um að sjóðastýringarfélagið Stefnir myndi fjárfesta fyrir um 1,5 milljarða króna í Arnarlaxi þrátt fyrir að hafa á liðnu ári lagt upp með þá stefnu að huga að ábyrgum fjárfestingum og vinnur að því að innleiða þær í fjárfestingaferli sjóða sinna.

Laxeldi í opnum sjókvíum hefur stóraukist við strendur Íslands á undanförnum árum. Lífeyrissjóðirnir hafa þó haldið sér til hlés í þeirri uppbyggingu enda er iðnaðurinn umdeildur. Nær öll uppbygging fiskeldis í sjókvíum hér á landi hefur tekið mið af verðmætasköpun fyrir þau fyrirtæki sem hana stunda, erlend stórfyrirtæki sem hafa með ódýrum hætti fengið aðgang að íslenskum auðlindum.

Á sama tíma er að stóru leyti skautað fram hjá umhverfissjónarmiðum. Fram til þessa hefur íslenskur sjávarútvegur haft það að leiðarljósi að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og sjálfbærum veiðum. Það má segja að sjávarútvegurinn byggi að stórum hluta ímynd sína og verðmætasköpun á þeim grundvelli en sömu sögu er ekki að segja um fyrirtæki sem stunda fiskeldi í opnum sjókvíum.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að fiskeldisiðnaðurinn skapar störf. Þau störf er hins vegar hægt að skapa á mun umhverfisvænni hátt enda hefur Ísland einhverjar bestu aðstæður í heimi til að stunda landeldi á fiski, með nægt landrými, miklar vatnsauðlindir og endurnýjanlega orku.

Samfélagsleg uppbygging

Þeir sem hafa gagnrýnt sjókvíaeldi á liðnum árum hafa þurft að sitja undir ásökunum um að vera á móti atvinnuuppbyggingu í dreifðum byggðum. Nú þegar fjárfesting Gildis og Stefnis í mengandi iðnaði er gagnrýnd er hætt við því að þeir sem hana leggja fram verði sakaðir um að vera á móti ávöxtun lífeyrissjóðsins og vilji þannig skerða lífeyrisréttindi. Þau viðbrögð stórfyrirtækjanna eru fyrirsjáanleg en alls ekki rétt.

Sem fyrr segir hafa bæði Gildi og Stefnir lagt áherslu á ábyrgar fjárfestingar sem taka mið af umhverfissjónarmiðum þó vikið sé frá þeim sjónarmiðum nú. Það að nýta lífeyri landsmanna og kasta frá sér samfélagslegri ábyrgð til að fjárfesta í mengandi iðnaði sem hefur skaðleg áhrif á lífríki fjarða og vatna setur afar slæmt fordæmi.

Stefnubreyting?

Við lifum á tímamótum þar sem heimsfaraldur hefur sett allt á hliðina, ferðaþjónustan liggur í dvala, atvinnuleysi fer vaxandi og fjárhagskreppan er hafin. Eðlilega er þá kallað eftir störfum og aukinni verðmætasköpun. Við viljum þó öll byggja útflutning og verðmætasköpun landsins upp með sjálfbærum og ábyrgum hætti og í sátt við náttúru landsins. Aðeins þannig tryggjum við verðmætasköpun til lengri tíma.

Við höfum ekki efni á því að vinna gegn náttúrunni. Á meðan flestir átta sig á mikilvægi þess að fjárfesta i endurnýjanlegum og sjálfbærum greinum getum við ekki setið hjá og ýtt undir iðnað sem mun skilja náttúruna eftir í verra ástandi fyrir komandi kynslóðir. Markmið lífeyrissjóðanna er fyrst og fremst að ávaxta lífeyri landsmanna. Þeir hafa nær allir sett sér þá samfélagslegu stefnu að gera það með fjárfestingum sem stuðla að sjálfbærri og vistvænni framtíð.

Sú stefna er vel við hæfi í þróuðum ríkjum eins og Íslandi. Þess vegna vekja fjárfestingar Gildis og Stefnis í mengandi iðnaði mikla furðu og eru vonandi ekki merki um stefnubreytingu í samfélagslegri ábyrgð.