Fjármálalæsi ungs fólks er til allrar hamingju að komast í tísku sem umræðuefni meðal foreldra. Innreið smálána á markaðinn er eflaust meðal þess sem ýtt hefur við foreldrum og eftir margra ára vinnu hefur loks nokkur árangur náðst í að koma fjármálafræðslu inn í skólakerfið. 

Sennilega heyri ég fáa frasa oftar en „það þarf að kenna þetta í skólunum“ þegar ég ræði við foreldra í kjölfar námskeiða um fjármál fyrir ungt fólk. Það er þó með fjármálafræðslu unglinga eins og undirbúning starfsloka að það er hægt að býsnast yfir og bölva kerfinu en það er þó öllum nauðsynlegt að undirbúa sjálfa sig vel og vandlega til að tryggja sem besta fjárhagsstöðu við starfslok. Vonandi verðum við sáttari við kerfið þegar þar að kemur, en það græða allir á því að gera ráð fyrir því versta. 

Að sjálfsögðu á fjármálafræðsla að vera stærri hluti skólakerfisins. En á meðan svo er ekki verða foreldrar að taka meiri ábyrgð. Ef þeir telja sig ekki hafa næga þekkingu til að miðla áfram til barnanna er lítið mál að verða sér úti um hana. Það er algjört lágmark að undirbúa börnin með einföldum þumalputtareglum sem hjálpa þeim að standa á eigin fótum. 

Eitt dæmi um slíkt getur verið að eiga alltaf til lítinn varasjóð svo aldrei þurfi að taka neyslulán. Annað er að dreifa aldrei greiðslum og staðgreiða öll kaup. Hvað með að benda unglingunum á að það sé erfitt að safna fyrir útborgun í íbúð á leigumarkaði og því sé skynsamlegast að byrja að safna í foreldrahúsum? 

Sá sem temur sér heilbrigða fjármálahegðun snemma verður ævinlega þakklátur, hvort sem fræðslan fór fram heima eða í skóla. Aðalatriðið er að hann hafi fengið hana. Útvistun fjármálafræðslu inn í skólakerfið mun aldrei koma í stað fyrir gott fjármálalegt uppeldi.