Samtakamáttur þjóðarinnar er mikill um þessar mundir. Við stöndum (þó ekki þétt) saman gegn útbreiðslu kórónaveirunnar. Góð samstaða er ekki sjálfgefin og við megum vera stolt af henni. Á skömmum tíma hafa þremenningar, sem fáir kunnu skil á áður, orðið eins konar þjóðargersemi. Hér er átt við Ölmu Möller landlækni, Þórólf Guðnason sóttvarnalækni og Víði Reynisson yfirlögregluþjón.

Ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa látið hendur standa fram úr ermum og rétt lífvænlegum fyrirtækjum og launþegum hjálparhönd. Þau segja að gert verði enn meira ef á þarf að halda. Það er góðs viti.

Flestir í heiminum eru heima til að forða sér og öðrum frá smiti. Heimshagkerfið er frosið og verður það þar til við höfum náð að koma böndum á kórónaveiruna. Þess vegna mun ástandið í efnahagsmálum versna áður en það birtir til. Talið er að landsframleiðsla í Kína hafi skroppið saman um tíu til tuttugu prósent í janúar og febrúar á milli ára.

Það góða við frostið er að þegar birtir til verður enn allt til alls; mannauður, fasteignir og framleiðslutæki. Í stríði er því ekki að heilsa. Hollt er að rifja upp að eftir seinni heimsstyrjöldina rann upp mikið blómaskeið í efnahagsmálum sem varði í tvo áratugi. Ef efnahagur heimsins gat tekið við sér eftir löng og blóðug átök ætti landsframleiðsla hérlendis að geta nokkuð fljótlega komist í svipað horf og áður þegar kórónaveiran losar klóna, ef rétt er að málum staðið.

Eins og áður hefur verið nefnt á þessum vettvangi er staða Íslands og annarra Vesturlanda mun betri en við fjármálahrunið 2008. Fyrir hrun voru íslensku bankarnir allt of stórir miðað við hagkerfið og skuldum hlaðnir í ofanálag. Bankar, bæði hér og víða erlendis, eru nú vel fjármagnaðir. Skuldsetning hér á landi er sömuleiðis mun minni en í aðdraganda bankahrunsins. Auk þess búum við að digrum gjaldeyrisvaraforða en hann var rýr við bankahrunið. Staðan er því allt önnur og betri til að mæta áföllum.

Á meðan við stöndum af okkur storminn er eina ráðið að bíða róleg heima. Það er áskorun fyrir foreldra barna að sinna þeim, vinnu og gera heiðarlega tilraun til að halda sönsum enda með marga bolta á lofti á fáeinum fermetrum. Án aðstoðar frá öfum og ömmum. Atvinnurekendur þurfa að sýna þessu skilning. En þetta er engu að síður tækifæri fyrir fjölskyldur til að vera saman og ber að nýta eftir bestu getu.