Þeir sem eru vinstra megin við miðju í stjórnmálum ættu að hrósa happi. Umsvif hins opinbera hér á landi, sem hlutfall af landsframleiðslu, eru með því mesta sem þekkist á meðal OECD-ríkjanna. Það er þeim að skapi.

Nú þegar stutt er í kosningar er æskilegt að brýna fyrir stjórnmálamönnum, hvar í flokki sem þeir standa, að þeir geta ekki lofað landsmönnum öllu fögru og aukið ríkisútgjöldin ríkulega á nýju kjörtímabili. Kjósendur þurfa sömuleiðis að hafa það í huga.

Aðstæður eru með þeim hætti að það þarf að sýna ráðdeild og draga úr umsvifum hins opinbera. Skuldir hins opinbera eru miklar í kjölfar björgunaraðgerða til handa efnahagslífinu eftir Covid-19 faraldurinn. Of miklar opinberar skuldir hamla hagvexti og ryðja úr vegi arðbærum einkafjárfestingum. Þess vegna þarf að koma böndum á þær en ekki auka þær. Áframhaldandi hagvöxtur er nauðsynlegur til að lífsgæði hér á landi verði mikil. Að sama skapi getur fámenn þjóð með litla mynt ekki leyft sér að skulda jafn mikið og stór hagkerfi til að laða að erlenda fjárfesta – sem er æskilegt – og halda fjármunum inni í hagkerfinu.

Hin hliðin á því að umsvif hins opinbera eru með því mesta sem þekkist á byggðu bóli er að þeir sem starfa í einkageiranum standa undir launum þeirra sem starfa hjá hinu opinbera. Það verður æ erfiðara eftir því sem opinberum störfum fjölgar. Blómlegt atvinnulíf er því nauðsynlegt til að standa undir opinberum rekstri. Þess vegna er mikilvægt að leita leiða til að draga úr skattheimtu og flóknu regluverki.

Ein leið til að hagræða í opinberum rekstri er að treysta í ríkari mæli á frumkvöðla til að leysa af hendi verkefnin. Þeir eru traustsins verðir og hafa hagræna hvata til að finna snjallar leiðir til að bæta þjónustuna og hagræða í rekstri. Valdi tiltekinn frumkvöðull ekki verkinu er hægur leikur að fela það einhverjum öðrum. Það er urmull af tækifærum til að hleypa einkaframtakinu að opinberri þjónustu til hagsbóta fyrir þá sem hana nýta og skattgreiðendur, svo sem í heilbrigðisþjónustu og menntakerfinu.