Stór hluti fanga í ís­lenskum fangelsum eru út­lendingar sem hafa lítil eða engin tengsl við landið. Hlut­fallið er breyti­legt en ó­var­legt er að á­ætla að það sé um tuttugu prósent á hverjum tíma. Fæstir sækjast eftir því að af­plána dóma sína í heima­landinu enda þrátt fyrir að fangelsis­kerfið hér á landi sé langt frá því full­komið er að­staðan í fangelsunum langt um betri en gengur og gerist í fá­tækari löndum. Á meðan staðan er þessi fylgir út­lensku föngunum gríðar­legur kostnaður en það eru fjár­munir sem nýst gætu til endur­hæfingar annarra fanga, til dæmis aukið verk­nám, starfs­þjálfun, fleiri stöður fag­fólks og alls kyns.

Af­staða, fé­lag fanga og annarra á­huga­manna um bætt fangelsis­mál og betrun, er sannar­lega hags­muna­fé­lag allra þeirra fanga sem af­plána dóma í ís­lenskum fangelsum þannig að þessi af­staða fé­lagsins kann að vera um­deild. Aftur á móti leita í­trekað til fé­lagsins ís­lenskir ríkis­borgarar í fangelsunum sem kvarta undan því að út­lenskum föngum er gert hærra undir höfði. Hefðin er nefni­lega þannig að út­lenskir fangar fá nærri undan­tekningar­laust reynslu­lausn eftir að hafa af­plánað helming dóms síns, óháð brota­flokki, og er þeim í kjöl­farið vísað úr landi þar sem þeir geta um frjálst höfuð strokið. Öðru vísi er farið með ís­lenska fanga sem flestir fá ekki reynslu­lausn fyrr en eftir að hafa af­plánað tvo þriðju hluta dóms síns.

Þetta mis­rétti kann að hafa átt rétt á sér áður fyrr en rök­stuðningurinn var sá að út­lenskir fangar hefðu ekki sömu réttindi og Ís­lendingar, þ.e. dags­leyfi, af­plánun í opnum fangelsum, að stunda vinnu utan fangelsa, að fara á Vernd og ljúka af­plánun undir raf­rænu eftir­liti. Þá var borið við að það væri svo mun þung­bærra fyrir út­lendinga að af­plána á Ís­landi en í heimlandinu vegna fjar­lægðar frá fjöl­skyldum sínum. Þetta er allt saman breytt í dag. Er­lendir ríkis­borgarar í ís­lenskum fangelsum hljóta ná­kvæm­lega sömu réttindi og Ís­lendingar auk þess sem raf­ræn sam­skipti stytta leiðina til fjöl­skyldu og vina í heima­landinu.

Af­staða hefur ekki sett þetta mál á oddinn vegna þess að til­hneigingin er sú að af­nema réttindi miklu frekar en að veita þau fleirum. Því grunar fé­lagið að í stað þess að Ís­lendingar fái reynslu­lausn eftir af­plánun helmings muni út­lendingum vera gert að af­plána lengur.

Að því sögðu þá leggur Af­staða til að stefnu­breyting verði gerð í fangelsis­málum þegar kemur að er­lendum ríkis­borgurum og teknar verði upp samninga­við­ræður við þau ríki Austur-Evrópu sem flestir fangar koma frá. Samningur verði gerður um heimild til að senda er­lenda ríkis­borgara til heima­lands síns um leið og endan­legur dómur hefur fallið í máli þeirra fyrir ís­lenskum dóm­stólum. Sam­bæri­leg leið hefur verið farin í Dan­mörku með góðum árangri og ættu ís­lensk stjórn­völd að byggja á vinnu Dana.

Mat Af­stöðu er að þetta fyrir­komu­lag myndi leiða til gríðar­legs sparnaðar í fangelsis­kerfinu, plássum myndi snar­fjölga og þar með yrði bið­listinn úr sögunni, ró­legra yrði í fangelsum landsins, tengsla­myndunum við brota­menn eða er­lend glæpa­gengi fækkar og ef­laust yrði minna um það að fólk yrði sent til Ís­lands í þeim eina til­gangi að brjóta af sér. Þar að auki yrði þetta til þess að bæta endur­hæfingu í ís­lenskum fangelsum og þar skila betra fólki út í sam­fé­lagið að nýju.

Hugsum í lausnum, spörum fjár­muni, bætum endur­hæfingu og búum til betra sam­fé­lag.

Höfundur er for­maður Af­stöðu, fé­lags fanga á Ís­landi.