Þetta hefur farið betur en á horfðist. Þrátt fyrir að hagkerfið hafi skroppið saman um 6,6 prósent á áeinu 2020, sem er næstmesti efnahagssamdráttur lýðveldissögunnar og um 200 milljarðar því horfnir út úr verðmætasköpuninni, þá er afraksturinn betri en flestar hagspár gerðu ráð fyrir. Hömlur á ferðalög vegna farsóttarinnar og umfangsmiklar mótvægisaðgerðir stjórnvalda í því skyni að halda uppi innlendri eftirspurn á krepputímum skiluðu sér í kröftugri einkaneyslu en búast hefði mátt við og það sama átti við um fjárfestingu í íbúðarhúsnæði. Samdrátturinn er á pari við önnur Evrópuríki en hins vegar nokkuð minni í samanburði við önnur lönd sem reiða sig eins mikið á ferðaþjónustu og Ísland. Stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugreinin, sem stóð undir þriðjungi útflutningstekna, þurrkaðist út en samt erum við að sjá afgang á viðskiptum við útlönd – níunda árið í röð. Sú niðurstaða sýnir ágætlega aðlögunarhæfni hagkerfisins.

Fyrir lítið, opið hagkerfi eins og Ísland skiptir öllu að viðhalda jafnvægi á greiðslujöfnuði við útlönd. Þetta hefur tekist vel á undanförnum árum, meðal annars með hjálp stórs gjaldeyrisforða sem hefur tryggt stöðugleika meðan á faraldrinum hefur staðið, og Ísland breyst frá fjármagnsinnflytjanda með viðvarandi viðskiptahalla til margra áratuga yfir í að vera fjármagnsútflytjandi með stöðugan viðskiptaafgang. Nýjar hagtölur frá Seðlabankanum í vikunni endurspegla þennan breytta veruleika en hrein erlend staða þjóðarbúsins við útlönd heldur áfram að batna og var jákvæð um 1.040 milljarða króna í árslok, eða sem jafngildir 35 prósentum af landsframleiðslunni. Aðeins örfá ríki innan Evrópusambandsins koma betur út en Ísland á þessum mælikvarða.

Til lengri tíma litið skapar þetta trausta umgjörð um krónuna, eykur trúverðugleika sjálfstæðrar peningastefnu og lágmarkar hættuna á fjármálaáföllum.

Þetta er mikil breyting á skömmum tíma. Stöðugleikaskilyrði stjórnvalda gagnvart kröfuhöfum gömlu bankanna við afnám hafta – gjöfin sem heldur bara áfram að gefa – þegar þeir framseldu um 600 milljarða til ríkisins réð miklu um að leggja grunn að þessari sterku stöðu gagnvart umheiminum. Til lengri tíma litið skapar þetta trausta umgjörð um krónuna, eykur trúverðugleika sjálfstæðrar peningastefnu og lágmarkar hættuna á fjármálaáföllum og miklum gengissveiflum. Á þessum sterka grunni hefur verið hægt, sem er einsdæmi í íslenskri hagsögu, að fara með vexti Seðlabankans niður fyrir eitt prósent og þannig milda áhrifin af kórónukreppunni án þess að óttast að verðbólgan færi á skrið.

Það má samt gera betur. Eftir samdráttinn á liðnu ári er landsframleiðsla á mann, leiðrétt að raunvirði með fólksfjölda, komin á sama stað og 2015 og einkaneyslan er á sömu slóðum og 2018. Hagkerfið á því eftir að vinna upp mikinn slaka til að ná sömu hæðum. Í ályktun á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins kom fram að auka þyrfti landsframleiðsluna um 545 milljarða og gjaldeyrissköpunina um 300 milljarða fram til ársins 2025 til að standa að betri efnahagslegum lífsgæðum landsmanna. Eigi þetta markmið að nást þurfum við hins vegar, eins og formaður SI nefndi í ræðu sinni, að komast út úr hugarfari „hindrana og hafta“ við setningu laga og reglugerða í atvinnulífinu „í stórum sem smáum efnum eða álagningu óhóflegra skatta og gjalda, þrátt fyrir að engin augljós eða brýn nauðsyn kalli á [slíkt]. Allt eru þetta mannanna verk sem hægt er að breyta.“ Það er ekki eftir neinu að bíða.