Lífið var um margt einfaldara í gamla daga. Flestir vissu að hagsæld þjóðarinnar réðist af því hvernig fiskaðist og því fylgdust heildsalar grannt með aflabrögðum til að áætla innkaup. Sjávarútvegur var jú eini gjaldeyrisskapandi atvinnuvegurinn en velmegun þjóða byggir á hversu vel útflytjendum vegnar.

Ísland hvorki er né hefur verið paradísarríki frjálshyggjumannsins þrátt fyrir að það sé fullyrt af og til í ljósi þess hve Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn. Að sama skapi virðast margir kæra sig kollótta um hve mikilvægur útflutningur er þjóðarbúinu. Miklar álögur á einkageirann og ósjálfbær launaþróun eru til vitnis um það.

Stjórnmálamenn sæta færist og hið opinbera stækkar sífellt. Samtök atvinnulífsins vöktu athygli á því að starfsfólk hins opinbera hafi fjölgað um 13 prósent á fjögurra ára tímabili en á sama tíma fækkaði starfsfólki hjá einkageiranum um 4 prósent. Þróun hófst áður en Covid-19 knésetti fjölda atvinnugreina með tilheyrandi atvinnuleysi. Þessi þróun þýðir að sífellt færri standa undir samneyslunni og skattar munu hækka. Skattar hér á landi eru þegar með þeim hæstu af OECD-ríkjunum. Það er því óskynsamlegt að hækka álögur frekar.

Nú erum við í óðaönn að breyta íslensku hagkerfi úr auðlindadrifnu hagkerfi í þekkingarhagkerfi. Rannsóknir sýna að hærri skattar draga úr nýsköpun. Minni opinber umsvif og skattalækkanir stuðla því að aukinni nýsköpun þótt meira þurfi til að leggja grunn að blómlegum hugverkaiðnaði.

Mikil opinber umsvif hamla viðgangi atvinnulífsins og draga úr hagvexti. Stjórnmálamenn þurfa að finna verkefni til að skera niður. Hið opinbera sinnir mörgum mikilvægum verkefnum sem færa má til einkaaðila í hagræðingarskyni. Má þar nefna rekstur skóla, heilsugæslu og fleira í heilbrigðisþjónustu auk umsvifa í upplýsingatæknimálum.

Íslenska hagkerfið er auðlindadrifið og atvinnuvegir sem byggja á nýtingu eru takmörk sett. Þess vegna verðum við að leggja metnað í að skapa frjósaman jarðveg fyrir hugverkaiðnað ef við viljum halda í við lífsgæði nágrannaþjóða okkar. Mikil opinber umsvif eru ekki til þess fallin.