Margir telja það skömm að veikjast á geði. Engu að síður geta geðsjúkdómar hrjáð okkur öll eins ekki síður en líkamlegir sjúkdómar og lækning getur tekið langan tíma. Oft rofnar tengslanet við ættingja og vini, fólk missir vinnuna og einangrast. Fólk verður fangar eigin huga. Menn þurfa stuðning til að komast út í lífið að nýju og þá hefst hið eiginlega bataferli. En til þess að svo geti orðið þarf eitthvað að taka við. Þegar ég veiktist var ekkert um slíkt að ræða. Ekkert tók við.

Í Bandaríkjunum hefur verið þróað kerfi sem hefur verið rannsakað af erlendum háskólum og það hefur sýnt sig að bæta líðan einstaklinga sem þjónustunnar njóta, fækkar innlögnum á sjúkrahús og auka þátttöku þeirra í samfélaginu, jafnt atvinnu sem og námi*. Þetta kerfi hefur einnig hlotið viðurkenningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

Það er vegna þessa kerfis sem við notum þátíðina „Ekkert tók við“ eftir veikindi. Klúbburinn Geysir starfar eftir þessari hugmyndafræði og hefur hjálpað ótal mörgum einstaklingum til betra lífs. Til að tryggja að klúbburinn starfi samkvæmt kerfinu er starfsemin tekin út á þriggja ára fresti af sérhæfðum einstaklingum úr fræðsluráði alþjóðasamtaka klúbbhúsa, Clubhouse International. Í fræðsluráðinu eru bæði notendur og starfsfólk klúbbhúsa en líta má á alþjóðasamtökin sem regnhlífarsamtök yfir þessa hugmyndafræði.

Í klúbbum sem byggja á þessari hugmyndafræði og oft er kennd við Fountain House fara ekki fram meðferðir geðsjúkrahúsa né heldur er einblínt á sjúkdóma eða lyfjameðferðir. Félagar eru hvattir til þess að horfa til styrkleika sinna og möguleika til þátttöku í samfélaginu og til að halda góðu sambandi við sína lækna. Klúbburinn kemur svo inn sem stuðningsaðili og málsvari félaganna sem byggir á vonum þeirra og óskum til innihaldsríks lífs.

Starfsfólk og félagar vinna hlið við hlið á vinnumiðuðum degi að markmiðum félaganna og klúbbsins. Auk þess að reka klúbbinn er vinnan fólgin í stuðningi við félaga við að komast út í lífið m.a. með því að veita stuðning í atvinnuleit, styðja við nám og leita námsleiða við hæfi, einnig við húsnæði og önnur þau gæði sem veikindin hafa hugsanlega skert og haft áhrif á.

Klúbburinn býður félögum atvinnutækifæri, ráðningu til allt að 12 mánuði meðan þeir eru að venjast slíkri daglegri þátttöku í samfélaginu. Þessi möguleiki hefur hjálpað mörgum til áframhaldandi atvinnutækifæra á almennum vinnumarkaði.

Einstaklingar eru ólíkir og hafa misjafnar þarfir og væntingar. Það eru ekki mörg úrræði fyrir geðsjúka í heiminum sem hafa verið rannsökuð jafn vel og úrræði klúbbhúsahreyfingarinnar og sýnt fram á góðan árangur hennar. Klúbburinn Geysir er eina úrræðið sem vinnur eftir hugmyndafræði Fountain House á Íslandi. Um leið og við hvetjum fólk með geðraskanir til þess að kynna sér starf Klúbbsins Geysis óskum við öllum til hamingju með alþjóðageðheilbrigðisdaginn.

Höfundar: Jón Sigurgeirsson félagi í Klúbbnum Geysi og Benedikt Gestsson aðst.framkvstj. Klúbbsins Geysis.

*https://www.clubhouse-intl.org...