Umsókn Finna og Svía um aðild að Atlantshafsbandalaginu er afstaða með lýðræðinu, gegn einræði og yfirgangi.

Hún er yfirlýsing um að slátrun saklausrar alþýðu manna er ekki liðin. Hún er heitstrenging um að standa með fólki og réttindum þess, framar öllu öðru.

Og hún er alger stefnubreyting, einhver sú sögulegasta frá því um miðja síðustu öld þegar eldarnir slokknuðu í Evrópu.

Það er vegna þess að merking þess að geta talað við alla hefur tæmst að innihaldi. Hlutverki hins saklausa sáttasemjara, sem Finnar og Svíar töldu sig svo lengi vera, er lokið, einmitt vegna þess að innistæðan hefur ekki reynst vera nokkur þegar í nauðirnar rekur.

Hlutleysið hefur verið afhjúpað með nýju stríði í Evrópu. Og það hefur ekki reynst vera annað en meðvirkni með árásaröflunum. Og raunar hrein og klár afstaða með þeim illu skröttum sem láta sér ekki segjast með samtalinu einu.

Þess vegna hafa Finnar og Svíar komist að sinni niðurstöðu. Og af sömu sökum kjósa Danir um það í næsta mánuði hvort þeir eigi að láta af einni af helstu undanþágu sinni að Evrópusambandsaðild sem varðar sameiginlegt hernaðarbandalag í álfunni.

Viðhorfið er einmitt það sama í Danmörku og í Finnlandi og Svíþjóð: getum við lengur verið værukærir áhorfendur að framvindu mála í álfunni okkar, getum við sem lýðræðisþjóðir látið hjá líða að taka afstöðu?

Þetta eru stærstu spurningar Evrópu í dag. Og allar þjóðir hennar verða að svara þeim, enda er annað ábyrgðarleysi á tímum alvarlegustu stríðsglæpa sem sögur fara af í álfunni um langa hríð.

Innrás Rússa í Úkraínu er stærsta áminning Evrópuþjóða í mannsaldur. Hún er þeim stærri lexía í lýðræði en flestir núlifendur hafa kynnst.

Þess vegna blasir sú breytta heimsmynd við sem knýr æ fleiri þjóðir álfunnar til bandalagsþátttöku. Það á við um Atlantshafsbandalagið og það á við um Evrópusambandið.

Ekki færri en tólf ríki Evrópu eru misjafnlega langt komin með að bætast í hóp 27 ESB-ríkja, en þau eru Albanía, Svartfjallaland, Norður-Makedónía, Serbía, Tyrkland, Bosnía, Kósovó, Moldóva, Georgía, Armenía og Aserbaísjan, auk auðvitað Úkraínu.

Jafnvel á Íslandi gætir þessarar sömu viðhorfsbreytingar, en nýlegar kannanir sýna að tveir af hverjum þremur landsmönnum sem gefa upp afstöðu sína vilja nú fulla aðild.

Og til þess þurfti stríð.