Skuggi hvílir yfir íslensku efnahagslífi. Ekki hefur dregið jafn mikið úr útflutningstekjum í þrjá áratugi og atvinnuleysi hefur þann tíma ekki verið meira, að undanskildu árinu 2008. Landsframleiðsla vex hægt og talið er að svo verði áfram næstu árin verði ekkert að gert.

Samkeppnisstaða hagkerfisins hefur versnað. Laun hafa hækkað meira hér en víða annars staðar. Að auki er launakostnaður mjög hátt hlutfall verðmætasköpunar flestra atvinnugreina.

Þungar fregnir af stöðu áliðnaðarins eru grafalvarlegar enda var útflutningur álvera 230 milljarðar króna árið 2018, þar af fóru 86 milljarðar í innlend útgjöld. Það er grafalvarlegt að Rio Tinto í Straumsvík kunni að hætta starfsemi sem hefur skapað um 500 vel launuð störf hjá fyrirtækinu og 750 afleidd störf.

Því ber að fagna hugmyndum um stórauknar innviðafjárfestingar ríkisins til að sporna við enn frekari kólnun hagkerfisins.

Því ber að fagna hugmyndum um stórauknar innviðafjárfestingar ríkisins til að sporna við enn frekari kólnun hagkerfisins. Með þeim verði hagkerfið reist við og byggt undir framtíðarhagvöxt.

Óveður vetrarins sýna svo ekki verður um villst að styrking raforkukerfisins er mjög aðkallandi. Uppbygging Landsnets á nýrri byggðalínu er risaframkvæmd og mun kosta tugi milljarða. En þar verður einnig að einfalda leikreglur og tímaramma sem framkvæmdum eru settar eins og forsvarsmenn Landsnets hafa ítrekað bent á.

Fjárfestingarþörf í samgöngum er gríðarleg. Sá listi er því miður allt of langur: vegir, brýr, hafnir eða göng. Dæmi um slík verkefni eru Sundabraut og að ráðast þarf í að byggja nýja flugstöð og flughlað Akureyrarflugvallar.

Forsætisráðherra hefur einnig talað fyrir fjárfestingum í nýsköpun og vísindum til að efla samkeppnishæfni landsins. Nýsköpun knýr vöxt og fleiri hugmyndir komast á legg og verða verðmæt fyrirtæki. Ríkið áætlar að verja 2,5 milljörðum króna til stofnunar Kríu, nýs hvatasjóðs nýsköpunar og frumkvöðlastarfs. Þar ættu að fylgja rýmri heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í nýsköpun.

Standi vilji til þess að koma atvinnulífi af stað er skynsamlegt að draga úr álögum á atvinnulíf.

Það kann að hljóma eins og þverstæða, en á sama tíma og hvatt er til opinberra fjárfestinga í innviðum er ástæða til að vara við ofþenslu ríkisútgjalda og að steypa ríkissjóði í milljarða rekstrarhalla. Nóg er samt. Standi vilji til þess að koma atvinnulífi af stað er skynsamlegt að draga úr álögum á atvinnulíf. Lægra tryggingargjald og lægri fasteignagjöld sveitarfélaga eru hér ofarlega á blaði.

Þá væri skynsamlegt að umbreyta eign ríkisins í Íslandsbanka í innviði. Þótt slík sala geti vart verið þáttur í skammtímaátaki á fjármögnun nauðsynlegra innviðaframkvæmda, væri eignasalan skynsamleg – og ætti að skapa rými og tækifæri.

Séu lán tekin til innviðafjárfestinga ættu menn að skoða þátttöku lífeyrissjóða. Undanfarin ár hefur ríkið dregið mjög úr skuldabréfaútgáfu, en með útgáfu markaðshæfra skuldabréfa með ríkisábyrgð ættu sjóðir á nýjan leik að geta fjárfest í slíku. Þörf fyrir uppbyggingu innviða er mikil. Ekki myndi skaða ef fjármunirnir væru innlendir.