Konu, sem sagði upp störfum sínum í vikunni, var sagt það til hnjóðs að hún væri kona sem vildi ná málamiðlun og semja. Hún kom jú að gerð „Grænbókar“ sem er ekki kjarasamningur heldur greining á stöðunni til að samningsaðilar séu sammála um hvaðan sé verið að semja. Fyrir suma hljómar það greinilega stórhættulegt að þurfa ekki að byrja á að rífast um fyrirliggjandi gögn og stöðu. Og vilja frekar sóa tíma okkar allra.

Og undir kom kórinn sem sagði að það væri alveg agalegt að hafa einhvern í hagsmunabaráttu sem vildi ná samningum. Skilaboðin voru, ef þú nærð samningum þá ertu að vinna fyrir andstæðinginn. Samningar þýða alltaf að hægt hefði verið að fá meira. Samningar og málamiðlanir þýðir að við höfum tapað.

Samningar snúast ekki síst um tilfinningar og væntingar. Það er hægt að ganga út með arfa­lélegan samning og upplifa sig sem sigurvegara. Ég hef líka gengið út, þar sem gengið var að öllum mínum kröfum og gott betur en mér fannst samt að ég hefði tapað. En hvort sem tilfinningin sem fylgir samningum er jákvæð eða neikvæð, þá þurfum við flest að semja og gera málamiðlanir. Jafnvel á hverjum degi þegar við semjum um hver eldar í kvöld og hver vaskar upp.

Þau sem ekki kunna þessa list að semja sig niður að niðurstöðu ná yfirleitt að semja sig út í horn. Jafnvel karlar í krapinu sem segjast ekki gefa tommu eftir. En freki karlinn öðlast ekki virðingu út á slíka samningataktík, heldur með því að lenda góðum samningi. Og við þurfum öll að semja um eitthvað. Alla daga.