Aðgerðir stjórnvalda til að hægja á útbreiðslu Covid-19 veiruafbrigðum hafa víða um lönd leitt til félagslegrar einangrunar sem getur haft víðtæk áhrif á geðheilsu allra en sérstaklega ungmenna.

Unglingar þurfa að reiða sig á jafnaldratengsl til þess að þroskast félags- og tilfinningalega. Úrræði sem skerða félagslega nálægð eru því sérstakur áhættuþáttur unglingsára þegar hraður taugaþroski eykur líkur á tilfinningalegum vanda. Tilfinningaleg viðbrögð verða ráðandi því sjálfsstjórnarkerfi sem gera okkur kleift að takast á við hvatirnar þroskast hægar.

Sjálfstæði frá foreldrum verður ráðandi afl og líffræðileg þörf fyrir samveru við jafnaldra eykst um leið og þroskatengd viðkvæmni getur gert þetta samspil að uppsprettu kvíða, átaka og höfnunar. Neikvæð jafnaldratengsl í þessum þroskaglugga leiða því til skertrar sjálfsímyndar og auka kvíða- og þunglyndiseinkenni.

Með því að gera fjarkennslu ráðandi, að hvetja ungmenni til að halda sig heima og halda sig fjarri jafnöldrum er gerð atlaga að geðheilsu þeirra til framtíðar.

Þótt langur tími kunni að líða áður en fullur skilningur á áhrifum sóttvarnaaðgerða á geðheilsu verða ljós liggja þegar fyrir rannsóknir um áhrif þeirra.

Nýleg áströlsk rannsókn sýndi t.d. hnignandi geðheilsu ungmenna við samanburð fyrir og eftir strangar aðgerðir þar í landi, einkum þeirra sem höfðu áhyggjur af stöðu faraldursins, sem áttu erfitt með að tileinka sér fjarkennslu og ungmennum sem bjuggu við vaxandi fjölskylduvanda á rannsóknartímabilinu.

Tengslin voru við afleiðingar sóttvarna, ekki útbreiðslu veirunnar eða heilsufarslegar afleiðingar af veikindum vegna hennar. Önnur nýleg samantektarrannsókn sýndi neikvæðar afleiðingar einangrunar barna sem leiddi til skertrar líkamlegrar virkni og tengsla við jafnaldra sérstaklega hjá þeim sem bjuggu við lakari félagslegar aðstæður fyrir.

Undanfarið hafa sálfræðingar og geðlæknar í ýmsum löndum stigið fram til að lýsa geðrænum afleiðingum og undirliggjandi sálfræðilegum áhrifaþáttum þess ástands sem hefur skapast, m.a. þeim sem lýst er sem múgsefjun leiddri af einsleitri umfjöllun fjölmiðla.

Einn þeirra er belgíski sál-tölfræðiprófessorinn Mattias Desmet sem segir jarðveginn fyrir þessa þróun hafa verið vaxandi einangrun fólks í vestrænum samfélögum og upplifun af tilgangsleysi í starfi og eigin lífi fyrir faraldurinn. Úr þeim jarðvegi hafi sprottið kvíði, ófullnægja og bræði.

Þegar Covid kom til sögunnar hlutgerðist kvíðinn og reiðin í sameiginlegum óvini sem fólk gat sameinast gegn og lífið öðlast óvæntan tilgang eins og gerist í styrjaldarástandi. Þú ferð að tilheyra, „við erum í þessu saman“ undir leiðsögn foringjans sem er settur á stall. Þeir sem efast verða óvinir og hugmyndir þeirra bannfærðar.

Fjölmiðlar eru undir sömu sefjun og sjá hlutverk sitt í því einu að mála myndina kringum faraldurinn sífellt sterkari litum til að fanga athygli viðtakenda.

Annar sálfræðilegur kraftur togar síðan almenningsálitið í sömu átt, fórnin sem aðgerðir gegn óvinunum krefjast fær sérstakt gildi og styrkir okkur í trúnni, dregur úr öllum efa, verður að eins konar trúarlegu ritúali. Því harðari aðgerðum sem er beitt því betra.

Að einangra sig frá öðru fólki, að vera með grímu verndar okkur ekki bara gegn sýkingum heldur sýnir að við tilheyrum, lífið fær þóknanlegan tilgang.

Flestir hafa þörf fyrir að fylgja áliti meirihlutans og þannig tilheyra hópi jafningja. Þetta var sýnt fram á í frægri tilraun Solomon Arch þar sem nemar áttu að meta lengd striks sem þeim var sýnt á mynd.

Tilraunahópurinn samþykkti auðveldlega ranga niðurstöðu ef aðrir í hópnum gerðu það, þörfin fyrir að samsama sig hópnum og skera sig ekki úr varð sterkari en eigin skynjun. Að tilheyra er eitt sterkasta afl unglingsáranna.

Það má því færa ýmis rök fyrir því að sú opinbera mynd sem stjórnvöld hafa málað (blessunarlega mildari litum en sumra annarra landa) og fjölmiðlar á Íslandi skreyta endurtekið sterkum litum, hefur skapað það hugarástand meðal almennings að allar aðgerðir sem beinast að óvininum verða auðveldlega samþykktar án tillits til hliðarverkana.

Stríðið þarf að vinnast og herkostnaðurinn greiddur síðar.