Einn vina minna þurfti að kaupa sér nýjan gatara á dögunum, en sá gamli hafði gefið sig eftir áralanga þjónustu á kontórnum.

Og ekki hélt hann að góð ráð væru dýr í þessum efnum, heldur snaraði sér út í næstu bókabúð og spurði afgreiðslumanninn hvort hann lumaði ekki á venjulegum gatara. Og það stóð ekki á svari, en umrædda græju af Leitz-gerð væri að finna í skrifstofudeildinni, en hana væri að finna á hæðinni fyrir neðan.

Og þar leyndust einmitt nokkrir gatarar af Leitz-gerðinni, pakkaðir inn í veglegan kassa – og án þess að líta á verðmiðann hélt okkar maður með einn þeirra að afgreiðslukassanum, umhugsunarlaust.

Og það var þar sem hann var vakinn af sjálfstýringu hversdagsins, hann þyrfti að reiða fram tæpar tíu þúsund krónur fyrir tækið – og þótt hann hváði, var ekki að sjá að búðarmaðurinn haggaðist um tommu í skrefinu, verðið væri 9.949 krónur fyrir stykkið, en hann fengi þó fimm prósenta afslátt sakir vildarvinakjara.

Niðurstaðan var því ljós: Venjulegur gatari á Íslandi kostar 9.452 krónur, með afslætti.

Umræddur viðskiptavinur gekk harla þungur til höfuðsins út úr búðinni, með nýja gatarann í poka, en af því að hann hafði um árabil dvalist í Frakklandi, sakir vinnu sinnar, fór hann að umreikna íslenska verðið yfir í evrur.

Og gat þetta verið, hugsaði hann, litlu léttari til höfuðsins, að gatari á Íslandi kostaði sem næmi 66 evrum? Það væru bæði ósköp og ósvífni, því varla gæti gatari af almennasta tagi talist til flóknustu og þróuðustu tækniundra samtímans, að okkar maður hélt.

Hann leitaði upp gataraverð í Frakklandi um leið og hann snaraðist inn á skrifstofuna sína og það tók tölvuna hans ekki langan tíma að finna verð á sama tækinu í bókabúðinni ytra, en það reyndist vera átta evrur.

Segir ekki meira af okkar manni að öðru leyti en því að hann skammast sín og hefur verið með böggum hildar frá því hann festi kaup á þessum gatara, eða öllu heldur, fjárfesti í honum, á áttfalt hærra verði en í Frans.

Íslendingar hafa löngum látið okra á sér. Og það er vegna þess að þeir hafa ekki samanburðinn í huganum. Þeir umreikna kaup sín ekki í evrur.

En láta sig hafa það. Árum og áratugum saman.