Ég sé það á samfélagsmiðlum að margir hafa notað tækifærið í sumarfríinu og gengið sér til heilsubótar. Notað tækifærið til andlegrar íhugunar um stöðu sína í samfélaginu, framtíðina og jafnvel tilgang lífsins. Í andlegri yfirbót með þjáningum í formi örþreytu og blóðugra blöðru-þakinna ilja. En öll koma þau aftur, gengin upp að hnjám en endurnærð á sál, eitthvað minna á líkama. Búin að endurnýja sambandið við sjálfið, tengja í jörð í algerri núvitund.

Ég hef úr fjarska dáðst að þessu fólki, seiglunni og staðfestunni. Séð sjálfa mig fyrir mér í þessari stöðu, einbeitt á sárum iljum, leysandi lífsgátuna milli þess sem ég íhuga framtíðina og skil fortíðina eftir í hverju gengnu skrefi. Allt mjög skáldlegt, djúpt og áhrifamikið. Sá þetta reyndar ekki gerast í nánustu framtíð enda ekkert fyrir göngur svona almennt. Eða yfirleitt, svo ég segi satt frá.

En svona getur nú lífið verið furðulegt og einmitt í dag lauk ég göngu yfir England, alls um 300 kílómetrum í fjölbreyttu landslagi og öllum veðrum. Þetta var mikil reynsla, en spurningin sem helst ásótti mig var hvernig ég lenti eiginlega í þessari göngu og því náði ég ekki að klára þetta með tilgang lífsins og lesendur verða því að geta sér til um hann. Ég hins vegar kann nú ógrynni af pabbabröndurum, alla Halla og Ladda-plötuna „Fyrr má nú aldeilis fyrr vera“ og er ósigrandi í Frúnni í Hamborg. Áherslur göngugarpanna fimm sem í ferðinni voru (einn 11, aðrir 50+) kunna að hafa ráðið einhverju.

Ég er samt ekki viss.